Mjög ánægður með ákvörðunina

Ásmundur Einar er ánægður með ákvörðun Ólafs Ragnars.
Ásmundur Einar er ánægður með ákvörðun Ólafs Ragnars. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Auðvitað er hann að svara kalli sem hann hefur greinilega orðið var við en persónulega er ég mjög ánægður með þetta,“ segir Ásmundur Einar Daðason þingflokksformaður Framsóknarflokksins aðspurður um ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar að bjóða sig fram í forsetakosningunum í sumar.

Ásmundur segist treysta forsetanum áfram til góðra verka.

„Ef þú horfir á hvernig hann hefur staðið sig gagnvart þessum lýðræðisþætti t.d .í Icesave-málinu þar sem hann var varnaglinn gagnvart lýðræðinu og nú þegar við horfum á það að okkur takist líklega ekki að koma þjóðaratkvæðisákvæðinu í stjórnarskrána liggur ljóst fyrir að þá sé lýðræðisventillinn hjá forsetanum óháð hvaða ríkisstjórn er í landinu. Hann hefur staðið sig alveg gríðarlega vel og sýnt að hann er tilbúinn að taka stöðu þjóðarinnar óháð því hverjir eru við völd.“

Ásmundur segir þó að ákvörðun Ólafs Ragnars hafi komið sér á óvart. „Ég átti nú von á því að hann myndi draga sig í hlé en ég er engu að síður mjög ánægður.“

Hvorki Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar eða Helgi Hjörvar þingflokksformaður vildu tjá sig um ákvörðun Ólafs Ragnars þegar eftir því var leitað í kvöld. Þá vildi Guðlaugur Þór Þórðarson, varaþingflokksformaður Sjálfsstæðisflokksins heldur ekki tjá sig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert