Var skráður fyrir tveimur skotvopnum

Guðmundur Valur Óskarsson, karlmaður á sjötugsaldri sem skaut eiginkonu sína til bana á heimili þeirra að Tindaflöt 3 á Akranesi á síðustu viku og svipti sig lífi í kjölfarið, var skráður fyrir tveimur skotvopnum. Lík þeirra fundust í hádeginu á miðvikudag en ekki liggur fyrir hvenær hjónin létu lífið þar sem niðurstaða krufninganna liggur ekki fyrir.

Nadezeda Edda Tarasova, eiginkona Guðmundar Vals, fannst látin í rúmi sínu en hann í stofunni. Samkvæmt heimildum mbl.is leikur grunur á að hann hafi skotið hana þegar hún var sofandi. 

Líkt og áður hefur komið fram virðast nágrannar þeirra ekki hafa orðið varir við neitt óvenjulegt þessa nótt og bárust engar tilkynningar til lögreglu vegna hávaða frá íbúðinni eða skothvella á svæðinu.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vesturlandi var lítil hlaupvídd á byssunni sem maðurinn hleypti af í íbúðinni um nóttina og því voru skotin ekki hávær. Lögregla vill ekki greina frá því hvort Guðmundur Valur hafi verið skráður fyrir vopninu sem hann er grunaður um að hafa notað til að myrða eiginkonu sína og svipta sjálfan sig lífi.

Þegar Nasazeda mætti ekki til vinnu sinnar í Grundaskóla á Akranesi um morguninn, þar sem hún starfaði sem skólaliði, hafði vinnuveitandi hennar samband við hana. Þetta var óvenjulegt en hún mætti alltaf stundvíslega til vinnu og sótti vinnuna vel. Hún svaraði ekki í símann og fór samstarfsfólk hennar að hafa áhyggjur af henni.

Guðmundur Valur svaraði heldur ekki í símann og stóðu báðir bílar þeirra fyrir utan heimili þeirra. Þetta þótti einnig óvenjulegt og var lögregla fengin til að kanna málið. Naut lögreglan á Vesturlandi liðsinnis sérsveitarinnar þegar lögreglumenn brutu sér leið inn í íbúðina þar sem lík hjónanna fundust.

Frétt mbl.is: Nöfn hjónanna sem létust

Frétt mbl.is: Konan fannst látin í rúmi sínu

Frétt mbl.is: Myrti konuna og svipti sig lífi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert