„Aflaði illa fenginna trúnaðargagna“

Alda Hrönn Jóhannsdóttir og Gunnar Scheving Thorsteinsson.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir og Gunnar Scheving Thorsteinsson. mbl.is/Júlíus/Kristinn

Gunnar Scheving Thorsteinsson, lögreglumaður og annar tveggja sakborninga í hinu svokallaða LÖKE-máli, gerir þá kröfu að Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, verði svipt embætti sínu og ákærð fyrir brot í starfi.

Er þetta meðal þess sem fram kemur í kæru Gunnars sem mbl.is hefur undir höndum.

„Alda Hrönn Jóhannsdóttir bar á mig rangar sakir sem aldrei áttu sér stoð í raunveruleika. Hún aflaði illa fenginna trúnaðargagna frá fyrrum maka mínum og notaði þau til að hefja einkarannsókn á mér og tveim vinum mínum án þess að neitt benti til að við hefðum brotið lög. Þetta gerði hún án þess að hafa rökstuddan grun um refsiverða háttsemi og án þess að við eða neinn annar sem okkur tengdist væri búsettur eða hefði nýlega heimsótt lögregluumdæmi hennar. Þá gerði hún þetta þrátt fyrir að vita vel að ef um væri að ræða raunverulega rannsókn á meintum brotum lögreglumanns heyrði slíkt undir ríkissaksóknara,“ segir í áðurnefndri kæru. 

Sögð hafa leitt hjá sér skýran framburð

Þá segir þar einnig að Alda Hrönn hafi leitt hjá sér „skýran framburð“ fyrrverandi maka Gunnars um að þrátt fyrir að hún vildi hefna sín fyrir sambandsslit þeirra, með því að koma Gunnari í vandræði í vinnunni, gæti hún fullyrt að þau tölvugögn sem hún hefði undir höndum vörðuðu ekkert saknæmt.

„Hún gætti sín einnig að skrásetja ekki vitnisburðinn og nafngreina ekki fyrrum maka minn í „greinargerð“ sem hún skrifaði sex mánuðum síðar til að bera mig og vini mína röngum sökum. Þannig gerði hún mér erfiðara fyrir að afsanna ávirðingar hennar og kom í veg fyrir að dómstólar eða saksóknari fengju réttar upplýsingar.“

Gunnar segir að við meðferð málsins fór Alda Hrönn með rangt mál fyrir dómi, við saksóknara og í málskjölum. „Ekki verður annað séð en það hafi verið gert til að saklausir menn væru bornir röngum sökum og sættu frelsissviptingu og þvingunaraðgerðum að þarflausu. Þá gerði hún sitt besta til að stuðla að því að ég væri sakfelldur fyrir meint brot sem ég var ekki bara saklaus af, heldur áttu sér aldrei stað.“

Átti að hafa flett upp nöfnum 45 kvenna

„Ákæruliður 1 í ákæru gegn mér dags. 9. júlí 2014 er byggður á röngum og villandi upplýsingum frá lögreglu á Suðurnesjum. Alda Hrönn Jóhannsdóttir fór með stjórn rannsóknar á Suðurnesjum og hafði aflað þeirra röngu upplýsinga persónulega. Þá bendir allt til þess að hún hafi persónulega veitt saksóknara rangar upplýsingar munnlega, umfram þær rangfærslur sem fram koma í „greinargerð“ hennar dags. 31. mars 2014. Var útgáfa ákæru bein afleiðing af þeim röngu upplýsingum.

Ég var ákærður fyrir að hafa flett upp nöfnum 45 kvenna í LÖKE án þess að það tengdist málum sem ég var að vinna að. Um var að ræða tíu ár aftur í tíman og ég gat með engu móti munað eftir einstökum málum sem ég hef unnið við eftir málsnúmerum. Án aðgangs að LÖKE var ávirðingin þannig að ég gat ekki með nokkru móti varið mig, þar sem ég gat ekki flett upp neinum upplýsingum um hvað lá að baki málsnúmerum.

Þegar verjandi minn fékk loks að rannsaka hvaða gögn lágu að baki kom í ljós að ég hafði aldrei flett upp meirihluta þessara nafna í LÖKE. Um 30 af þeim voru einfaldlega ósannindi. Á öðrum voru eðlilegar skýringar, rétt eins og ég hafði haldið fram frá upphafi. Ekki aðeins hafði lögregla látið hjá líða að rannsaka hvort slíkar skýringar ættu við, þau gögn sem lögregla á Suðurnesjum afhenti saksóknara og verjanda voru þannig úr garði gerð að ekki var hægt að sjá að slík rannsókn hafði ekki farið fram,“ segir í kæru Gunnars.

Kærandi og stjórnandi rannsóknar

Gunnar segir að Alda Hrönn hafi hafið mál að tilefnislausu. „„Greinargerð“ hennar, sem hún skrifar eftir sex mánaða einkarannsókn, þar sem hún fór ekki eftir neinum lögum eða reglum, var að efni til kæra gegn mér og tveim öðrum. Einu gögn að baki þeirrar kæru eru orð Öldu Hrannar um hvað var að finna á 1596 bls. af trúnaðarsamræðum okkar og hvað tölvurannsókn hefði leitt í ljós. Hún fór með rangt mál um bæði atriði.

Þrátt fyrir að vera í raun kærandi í málinu fór Alda Hrönn svo með daglega stjórn á rannsókn þess. Ekkert sem hún fann renndi stoðum undir fjarstæðukenndar ávirðingar hennar. Hún fyrirskipaði rannsakendum einfaldlega að halda áfram, að finna eitthvað sem hægt væri að ákæra fyrir. Þegar ekkert sem réttlætti það offors sem einkennt hafði rannsóknina fannst virðist hún hafa notast við það sem fyrir lá, fullviss um það að tölvugögnin væru of flókin og of umfangsmikil til að saksóknari gæti séð að þau sýndu fram á andstöðu þess sem Alda Hrönn hélt fram.“

„Að skrásetja ekkert“

Í kæru Gunnars segir að Alda Hrönn hafi brotið gegn lögreglulögum nr.90/1996 og sakamálalögum nr. 88/2008 með því að hefja rannsókn á meintum brotum lögreglumanns utan síns umdæmis og án heimildar ríkissaksóknara eða héraðssaksóknara.

„Þá var sú aðferðafræði sem Alda Hrönn beitti, þ.e. að skrásetja ekkert, opna ekki mál í málaskrá, taka ekki skýrslur af meintum vitnum, halda ekki bókhald um haldlögð tölvugögn og að skrifa ekki rannsóknarskýrslu um tölvurannsóknir, alls ekki í samræmi við lög, reglugerðir, starfsreglur, siðareglur eða góðar rannsóknarvenjur.

Þá gerðist hún einnig sek um brot gegn lögum um persónuvernd nr. 77/2000, sbr. reglugerð um meðferð lögreglu á persónuupplýsingum, þegar hún kallar eftir upplýsingum um meira en 3500 aðila úr málaskrá lögreglu án þess að það sé í tengslum við neina opna lögreglurannsókn eða að fyrir liggi málefnalegar ástæður til að kalla eftir slíkum gögnum.“

Vegið að mannorði og æru 

Segir Gunnar Öldu Hrönn hafa með athæfi sínu vegið að mannorði hans, æru og starfsheiðri. „Rangar fullyrðingar hennar í opinberum skjölum og í dómsal höfðu í för með sér frelsissviptingu mína og gróf brot gegn persónu minni og friðhelgi einkalífs. Brot hennar stuðlaði einnig að því að svívirðilegar og tilhæfulausar ærumeiðandi ásakanir um mig breiddust út í fjölmiðlum og meðal starfsbræðra minna. Líf mitt fór í þúsund mola og enn í dag, tveim árum síðar, er ég rétt byrjaður að setja það saman aftur.

Ítreka ég þannig þá kröfu mína að brot Öldu Hrannar verði rannsökuð að fullu og henni gerð þyngsta refsing sem lög leyfa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert