„Bar á mig tilbúnar sakir án tilefnis“

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur LRH.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur LRH. mbl.is/Júlíus

Fyrrverandi starfsmaður fjarskiptafyrirtækisins Nova, sem var sakborningur í hinu svokallaða LÖKE-máli, hefur kært „ólögmæta einkarannsókn Öldu Hrannar Jóhannsdóttur“ gagnvart sér. Kemur þetta fram í kæru mannsins sem mbl.is hefur undir höndum.

Alda Hrönn Jóhannsdóttir gegnir stöðu aðallögfræðings hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. En í áðurnefndri kæri kemur einnig fram að starfsmaðurinn fyrrverandi kærir jafnframt meint brot Öldu Hrannar á friðhelgi einkalífs hans sem og ærumeiðandi aðdróttanir og rangar sakargiftir sem leiddu til hins svonefnda LÖKE-máls. 

„Þá kæri ég athæfi hennar við daglega stjórn þeirrar rannsóknar, ranga skýrslugerð og rangar fullyrðingar sem Alda Hrönn bar fram við saksóknara og dómara,“ segir í kæru mannsins. 

Gerir hann þá kröfu að meint brot Öldu Hrannar verði rannsökuð og að hún verði ákærð og gerð þyngsta refsing sem lög leyfa. Er jafnframt krafist þess að hún verði svipt embætti sínu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og réttindum til lögmennsku. 

Fer fram á skaðabætur og miska

„Ég geri kröfu um skaðabætur og miska úr hendi Öldu Hrannar, skv. einkaréttarkröfu sem ég hef falið lögmanni mínum að taka saman og verður lögð fram síðar. Auk þess að vega gegn æru minni og persónu kostuðu rangar sakargiftir Öldu Hrannar mig atvinnuna og hafa skaðað starfsheiður minn þannig að ósennilegt er að ég fái aftur vinnu á því sviði sem ég áður starfaði.

Brot Öldu Hrannar áttu sér stað á tímabilinu 3. eða 4. september 2013 til 9. júlí 2014. Fór hún þá með lögregluvald sem varalögreglustjóri. Kæru er beint til héraðssaksóknara skv. 1. mgr. 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996.

Alda Hrönn Jóhannsdóttir bar á mig tilbúnar sakir án tilefnis eða málefnalegra ástæðna fyrir grunsemdum. Hún aflaði án heimildar afrita af einkasamræðum mínum við trúnaðarvini og notaði þau til að hefja einkarannsókn á mér og tveim vinum mínum.

„Greinargerð“ Öldu Hrannar dags. 31. mars 2014 er full af ósannindum og aðdróttunum um mig. Sú greinargerð er að efni til kæra gegn mér og tveim öðrum, vegna brota sem aldrei áttu sér stað. Einu gögn að baki þeirrar kæru eru orð Öldu Hrannar um hvað var að finna á 1596 bls. af trúnaðarsamræðum okkar og um hvað tölvurannsókn hefði leitt í ljós. Alda Hrönn fór með rangt mál um bæði atriði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert