Samþykktu fjármálaáætlun til fimm ára

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. Eggert Jóhannesson

Fjármálaáætlun fyrir árin 2017-2021 var lögð fyrir á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Áætlunin er lögð fram í samræmi við ný lög um opinber fjármál og var hún samþykkt á fundinum. Ekki liggur fyrir nákvæmlega hvenær hún verður lögð fyrir Alþingi en samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu stendur það þó til á næstunni.

„Um er að ræða þó nokkuð viðamikil skjöl, sérstaklega fjármálaáætlunin, á annað hundrað blaðsíður um stefnur í ólíkum málaflokkum,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra á Alþingi í gær um málið.

„Ég vonast til þess þegar skjalið kemur fram að okkur takist í fyrsta skipti sem þetta gerist að taka málið til góðrar umræðu og dýpka umræðuna um hvernig útlit er í opinberum fjármálum, hvað ríkið leggur af mörkum til að viðhalda stöðugleika og hvað við getum gert til að ná betri árangri fyrir landsmenn á hinum ólíku sviðum.“

Bjarni sagði áætlunina leggja breiðu línurnar en að nánari útfærsla yrði væntanlega í fjárlögum hvers árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert