Besta staða frá stríðslokum

Fram kemur í nýjum Fjármálastöðugleika Seðlabankans að í lok mars …
Fram kemur í nýjum Fjármálastöðugleika Seðlabankans að í lok mars var gjaldeyrisforðinn 735 milljarðar. Peningaseðlar Íslenskir Dollarar og Bresk pund mbl.is/Árni Sæberg

Sérfræðingar telja líklegt að eftir tvö til þrjú ár verði erlend staða þjóðarbúsins orðin jákvæð. Það eru gríðarleg umskipti á fáum árum. Eftir að bankakerfið hrundi varð staða þjóðarbúsins neikvæð um 130% af landsframleiðslu í árslok 2008.

Sigríður Benediktsdóttir, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs Seðlabankans, segir í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag, engin merki um áhættu vegna mikils innflæðis gjaldeyris í landið. Þjónustuinnflutningur, einkum í ferðaþjónustu, eigi mikinn þátt í þeirri þróun. Þetta sé ekki innflæði vegna fjárfestingar, sem geti falið í sér áhættu, líkt og gerðist fyrir hrunið.

Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, segir að leita þurfi aftur til áranna eftir síðari heimsstyrjöld til að finna hliðstæðu við svo góða stöðu þjóðarbúsins.

Á kreppuárunum hafi erlendar skuldir landsins verið um 40% af landsframleiðslu og gjaldeyriseignir Landsbankans, sem var seðlabanki landsins, verið litlar sem engar.

„Þetta snerist allt við í stríðinu, en við lok þess höfðu landsmenn greitt upp stóran hluta af erlendum skuldum landsins og Landsbankinn átti gjaldeyriseignir er námu um 35% af vergri landsframleiðslu. Ástæðan var fyrst og fremst ábatasöm sala á fiski til Bretlands á styrjaldarárunum.“

Hagur heimilanna hefur sjaldan verið betri en nú, miðað við stöðu og þróun helstu hagvísa fyrir heimilin, að því er fram kemur í riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleika 2016/1. Skuldir heimila og fyrirtækja lækkuðu heilt yfir árið 2015 og í lok árs voru þær svipaðar og um aldamótin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert