Litháar keyra fyrir Strætó

25 erlendir starfsmenn koma að vinna hjá Strætó í sumar.
25 erlendir starfsmenn koma að vinna hjá Strætó í sumar. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Alls eru 25 Litháar að koma til landsins í næstu viku, á vegum starfsmannaþjónustu, til að keyra hjá Strætó. Munu þeir starfa hér á landi til loka ágúst. Er þetta gert til að bregðast við skorti á meiraprófsbílstjórum, en flestir sem hafa slíkt próf eru að vinna við ferðaþjónustu.

„Við erum að prófa þetta og vonandi gengur þetta vel því þá getur þetta hjálpað okkur í framtíðinni þegar álagið er mikið,“ segir Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó BS, í umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Litháarnir munu koma til landsins í næstu viku og fara beint í nýliðaþjálfun hjá Strætó. „Við leituðum á náðir starfsmannaþjónustu sem útvegaði okkur þessa 25 starfsmenn sem munu keyra fyrir okkur í sumar. Þeir koma til landsins í næstu viku og fara þá beint í nýliðaþjálfun. Þetta er gert til að geta veitt okkar föstu starfsmönnum sumarleyfi. Við höfum þurft að keyra á mikilli yfirvinnu og það er fínt að leyfa fólki að fara í sumarfrí.“

Verða að geta talað ensku

Jóhannes segir að Strætó BS. hafi gert kröfu um að bílstjórarnir gætu talað ensku. „Þeir eru flestir frá Litháen og við gerðum kröfu um að þeir væru enskumælandi.

Við borgum þeim beint laun og bílstjórarnir fara á sama taxta og þeir sem eru að keyra fyrir okkur í dag. Við erum ekki að borga þriðja aðila sem borgar svo þeim. Við erum ábyrgt fyrirtæki og vildum gera þetta rétt og vel.“

Allir starfsmenn Strætó geta talað ensku en misvel. „Það er þannig að einhverjir bílstjórar okkar eru ekki góðir í ensku og þá geta skilaboð misfarist.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert