Tengdu íslenskan límmiða við ISIS

Ljósmynd/Johan Van Cutsem

Belgísk hjón, sem hafa komið til Íslands fimmtán sinnum og aka bifreið sem skartar límmiða úr Norrænu, voru stöðvuð af vopnaðri lögreglu í Sviss á dögunum. Ástæðan var límmiðinn, en á honum stendur IS sem sumir tengja við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams.

Að sögn Johan Van Cutsem, sem starfar sem ljósmyndari í heimalandinu, voru hann og kona hans á ferð í gegnum Sviss á leið sinni til Sardiníu þegar að þau voru stöðvuð þann 28. mars síðastliðinn. Þá var aðeins tæp vika liðin frá hryðjuverkunum í Brussel sem Ríki íslams hafði lýst ábyrgð yfir.

„Við vorum nálægt borginni Luzern þegar ég tók eftir því að lögreglubíll var að elta okkur. Hann náði okkur og lögreglumennirnir skipuðu okkur að stöðva bílinn. Við gerðum það og tveir lögreglumenn, í skotheldum vestum og með byssur nálguðust bílinn,“ lýsir Van Cutsem í samtali við mbl.is. „Næstu mínútur var leitað á okkur og máttum við heyra einn lögreglumann tala í talstöð á meðan hinn starði á okkur, með höndina á byssunni.“ Van Cutsem segir að andrúmsloftið hafi verið spennuþrungið þar til þeir spurðu hvort hjónin hefðu farið til Íslands sem þau svöruðu játandi.

„Lögreglumennirnir urðu þá vinalegri og báðust afsökunar á að hafa truflað okkur,“ segir Van Cutsem og útskýrir fyrir blaðamanni að lögreglumennirnir hefðu stöðvað bifreið þeirra útaf límmiðanum frá Norrænu þar sem á stendur IS fyrir Ísland.

„Límmiðinn þótti grunsamlegur, sérstaklega í ljósi þess að við vorum á bíl frá Belgíu,“ útskýrir Van Cutsem. „Okkur fannst þetta alveg stórmerkilegt.“

Van Cutsem ákvað að hafa samband við mbl.is og vara Íslendinga við því að keyra um meginland Evrópu með límmiða merkta IS. Límmiðinn hafði verið á bíl hjónanna í tólf ár, eða síðan þau ferðuðust fyrst með Norrænu. Hafa þau gert það þó nokkrum sinnum síðan og segjast vera „háð“ Íslandi.  

Svissnesku lögreglumennirnir bentu þeim vinsamlegast á að fjarlægja límmiðann á meðan þau væru á ferðinni í landinu sem þau gerðu.

Johan og eiginkona hans Anne Bogaert í Landamannalaugum.
Johan og eiginkona hans Anne Bogaert í Landamannalaugum. Ljósmynd/Johan Van Cutsem
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert