Nýr unglingaskóli í Hafnarfirði

Skólinn verður í Hafnarfirði.
Skólinn verður í Hafnarfirði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Grunnskólinn NÚ mun hefja starfsemi næsta haust að Flatahrauni 3 í Hafnarfirði. „Skólinn er ætlaður efstu bekkjum grunnskólans og mun leggja áherslu á að veita unglingum tækifæri til að samþætta íþróttaáhuga og grunnskólanám,“ segir Kristján Ómar Björnsson, einn stofnenda skólans. Einkunnarorð skólans verða marksækni, íþróttamennska og umhverfisvitund. Einnig verða heilsutengdir þættir, bæði líkamlegir og andlegir, mataræði og efling jákvæðs viðhorfs, ásamt því að virkja áhugahvatir nemenda, í fyrirrúmi.

Félagið Framsýn skólafélag ehf. er stofnandi skólans. Í stjórn þess eru Kristján Ómar Björnsson, heilsustjóri, sem hefur margra ára reynslu af íþrótta- og skólastarfi. Gísli Rúnar Guðmundsson er skólastjóri, en hann hefur margra ára reynslu af skólamálum. Einnig hefur hann lokið MPM-námi frá HR. Sigríður Kristjánsdóttir er rekstarstjóri.

Hvernig vil ég hafa námið mitt?

Unnið er út frá kenningunni um sjálfsákvörðunarréttinn (e. self-determination theory), sem gengur út á að nemendur finni fyrir innri löngun í því sem þeir gera.

„Aðferðafræðin gengur út á að einstaklingurinn hafi eitthvað að segja um framvindu námsins og hafi val upp að ákveðnu marki. Einnig er stuðst við svokallað vendinám (e. flipped classroom method), sem stuðlar að því að hver nemandi finni hjá sér innri hvata í námi. Einstaklingurinn skal blómstra sem slíkur en einnig sem hluti af liðsheild,“ segir Kristján Ómar. Nemendum gefst tækifæri til að afla sér þekkingar og færni á þeim hraða sem hentar þeim.

Heilsuriti og eigin tölva

Skólinn mun að sögn Kristjáns byggja á Aðalnámskrá grunnskólanna og starfa eftir öllum þeim lögum og reglugerðum sem eiga við um íslenska grunnskóla.

Allt námsefnið verður í einni tölvu. Í takt við þróun tækninnar og gild umhverfissjónarmið munu öll námsgögn vera aðgengileg í fartölvu. sem hver nemandi hefur til afnota Allir nemendur eru tengdir skólanetinu sem heldur utan um allt námsefnið. Þeir hafa einnig aðgang að heilsurita sem veitir þeim upplýsingar um hreyfingu, svefnvenjur og mataræði.

Umhverfissjónarmið verða höfð í fyrirrúmi. Nemendur og kennarar verða t.d hvattir til að koma hjólandi eða gangandi í skólann og svo er áhersla á almenna virðingu fyrir umhverfinu.

Hægt er að sækja um í skólann frá og með deginum í dag á vefnum www.framsynmenntun.is. Aðeins verða 60 nemendur teknir inn í haust. Nemendur nærliggjandi sveitarfélaga eru hvattir til að sækja um.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert