Íhuga frekari aðgerðir

Flugumferðarstjórar munu í vikunni skoða að grípa til frekari aðgerða.
Flugumferðarstjórar munu í vikunni skoða að grípa til frekari aðgerða. mbl.is/Rax

Samningaviðræður í kjaradeilu flugumferðarstjóra og Isavia stranda á launaliðnum. Yfirstandandi er ótímabundið yfirvinnubann en áhrifa þess gætir aðallega þegar veikindi verða eða önnur forföll. Næst verður fundað í deilunni í fyrramálið.

„[Viðræðurnar] ganga bara mjög hægt og menn eru ekki á einu máli um hvaða leið þeir vilja fara til að klára þessa samninga,“ segir Sigurjón Jónasson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, um stöðu mála.

Viðræður hófust í lok október og stefnt var að því að klára nýjan samning áður en sá gamli rynni út 1. febrúar en það gekk ekki eftir, að sögn Sigurjóns.

Ótímabundið yfirvinnubann hófst 6. apríl  en verið er að skoða frekari aðgerðir. „Það kemur í ljós í þessari viku hvort það verður eitthvað meira gert. Við eigum eftir að ræða saman innan félagsins,“ segir formaðurinn.

Varðandi áhrif yfirvinnubannsins segir Sigurjón erfitt að kortleggja þau fram í tímann. Undir þetta tekur Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia.

Hann segir áhrifanna gæta þegar veikindi eða önnur forföll koma upp og þá hefur bannið mest áhrif þegar fáir eru á vakt, því þá eru færri til að hlaupa undir bagga ef einhver forfallast.

Guðni segir ákveðinn forgang í gangi á meðan yfirvinnubannið stendur yfir; neðst á forgangslistanum séu atriði á borð við æfingaflug, efst sjúkra- og neyðarflug, sem er á undanþágu, og rétt þar á eftir áætlunarflug.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert