Bjartsýnn á tilboð í jörðina

„Ég á von á því að það komi tilboð fljótlega,“ segir Ólafur Björnsson, hæstaréttarlögmaður og fasteignasali hjá Lögmönnum Suðurlandi, í samtali við mbl.is en hann fundaði með sýslumanninum á Suðurlandi í dag þar sem honum var falið að selja jörðin Fell í Austur-Skaftafellssýslu en hluti jarðarinnar nær yfir Jökulsárlón.

Til stóð að bjóða jörðina upp þann 14. apríl en sýslumaðurinn á Suðurlandi úrskurðaði 10. mars að jörðin yrði seld á nauðungaruppboði til slita á sameign að ósk gerðarbeiðenda. Eigendur jarðarinnar eru um 40 talsins eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Skiptar skoðanir eru um málið. Sumir vilja halda jörðinni í sameign en aðrir slíta henni.

Ólafur hefur þrjá mánuði til þess að selja jörðina en talist það ekki heldur nauðungarsöluferlið áfram. Ólafur segir aðspurður í samtali við mbl.is að hann sé bjartsýnn á að það takist að selja jörðina. Jörðin verði auglýst til sölu á næstunni. Bæði hér heima og eitthvað erlendis. 

Spurður hvort hugsanlegir kaupendur hafi þegar haft samband segir Ólafur svo ekki vera en hins vegar viti hann af því að haft hafi verið samband við sýslumanninn vegna málsins. Það sé því greinilegt að áhugi sé á því að kaupa jörðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert