Milljónir í skaðabætur vegna Vodafone-leka

SMS-samskipti viðskiptavina Vodafone voru á meðal þess sem var lekið …
SMS-samskipti viðskiptavina Vodafone voru á meðal þess sem var lekið á netið í kjölfar innbrots á vefsíðu fyrirtækisins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjarskipti hf., eigandi Vodafone, voru dæmd til að greiða þremur einstaklingum samtals 2,7 milljónir króna í skaðabætur vegna tjóns sem þeir urðu fyrir þegar upplýsingar um þá birtust opinberlega í Vodafone-lekanum svonefnda í dag. Fyrirtækið var sýknað af kröfum tveggja annarra. 

Í tilkynningu frá Fjarskiptum kemur fram að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi kveðið upp dóm í fimm málum sem höfðuð voru gegn fyrirtækinu í dag. Lokað þinghald var í þeim öllum. Fólkið taldi sig hafa orðið fyrir tjóni þegar tölvuþrjótur stal upplýsingum af svonefndum „Mínum síðum“ af heimasíðu Vodafone í nóvember árið 2013. Viðkvæm smáskilaboð viðskiptavina fyrirtækisins voru á meðal þess sem birtist opinberlega eftir innbrotið.

Einstaklingarnir fimm kröfðust samtals 103.800.000 króna í skaðabætur. Einn gerði kröfu um bætur að höfuðstól 90.000.000 kr. og honum voru dæmdar 1.500.000 kr. Annar gerði kröfu um bætur að höfuðstól 12.000.000 kr. og honum voru dæmdar 1.000.000 kr. Sá þriðji gerði kröfu um bætur að höfuðstól 600.000 kr. og honum voru dæmdar 200.000 kr.

Við hinar dæmdu fjárhæðir bætast vextir og dráttarvextir. Eins bætist við málskostnaður sem Fjarskiptum hf. ber samkvæmt dómunum að greiða til þessara þriggja einstaklinga, samtals að fjárhæð 1.800.000 kr. Þeir fjórðu og fimmtu gerðu hvor fyrir sig kröfu um bætur að höfuðstól 600.000 kr. en af þeim kröfum voru Fjarskipti hf. sýknuð.

Fjarskipti hf. munu nú gefa sér tíma til að kynna sér forsendur dómanna og meta framhaldið, að því er segir í tilkynningunni.

Enn liggur fyrir héraðsdómi til úrlausnar bótakrafa eins einstaklings til viðbótar en höfuðstóll hennar hljóðar upp á 8.424.500 kr. Aðalmeðferð í málinu fer fram 13. maí nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert