Allt að 34% skerðing á framfærslu á fimm árum

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, segir það forsendubrest fyrir íslenska …
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, segir það forsendubrest fyrir íslenska námsmenn erlendis að lánaupphæð þeirra sem þeir geta fengið hafi rýrnað um allt að 30% frá því að þeir byrjuðu að stunda nám. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, hefur tekið saman breytingar milli úthlutun til íslenskra nemenda erlendis á framfærslu Lánasjóðs íslenskra námsmanna frá árunum 2013 til 2017 og breytingarnar sem þar hafa orðið og birt á Facebook síðu sinni. „Ég fékk sent yfirlitsdæmi og byrjaði að reikna þetta saman þar sem mér þykir þetta áhugavert,“ segir Ásta Guðrún í samtali við mbl.is.

Sjá frétt mbl.is: Lán námsmanna erlendis lækka um 20%

„Í sumum tilfellum hafa kjör námsmanna rýrnað um rúm 30% á þessu fjögurra ára tímabili. Milli ára er allt að rúmlega 20% skerðing á framfærslu á mánuði. Það getur ekki talist vera annað en forsendurbrestur fyrir íslenska námsmenn erlendis að lánaupphæð þeirra sem þeir geta fengið hafi rýrnað um allt að 30% frá því að þeir byrjuðu að stunda nám,“ segir Ásta Guðrún.

Samantekt Ástu Guðrúnar um breytingar á úthlutun til íslenskra námsmanna …
Samantekt Ástu Guðrúnar um breytingar á úthlutun til íslenskra námsmanna erlendis. **Tölurnar á meðfylgjandi mynd miða við undanfarnar úthlutunarreglur LÍN og miða við einhleypan námsmann í eigin/leiguhúsnæði í námi erlendis** Með fyrirvara um innsláttar og/eða stærðfræðivillur. Tafla/Ásta Guðrún Helgadóttir

Dæmið um Þýskaland stendur Ástu Guðrúnu næst, en hún var búsett þar um hríð. „Segjum sem svo að þú hafir byrjað í námi í Þýskalandi árið 2013 og fékkst þá 1300 evrur á mánuði til að lifa af, miðað við það að þú sért í námi 9 mánuði ársins eins og LÍN lítur á það. En í raun er þetta lægri upphæð ef þú lítur til 12 mánaða, eins og venjulegt ár er.“ Ásta Guðrún bendir á að 1300 evrurnar eru nú orðnar að 860 evrum, eða um 120.000 krónum, á mánuði, miðað við 9 mánuði eins og LÍN gerir, en 645 evrur, eða 90.000 krónur, miðað við 12 mánuði. 

„Ég er á því að það fer að verða eitt stærsta hagsmunamál íslenskra stúdenta að fá það viðurkennt að stúdentar eru stúdentar 12 mánuði á ári, en ekki 9 mánuði á ári eins og úthlutunarreglur gera ráð fyrir,“ segir Ásta Guðrún.  

Íslenska námskerfið byggt á úreltu sveitasamfélagi

Ásta Guðrún telur því mikilvægt að endurskoða uppbyggingu íslenska námskerfisins. „Vandamálið með íslenskt námskerfi er að það er svolítil arfleifð frá þessu gamla sveitasamfélagi, þegar fólk fór í nám að hausti þegar fyrri eða seinni leitir voru búnar og komu til baka við sauðburð. Þetta eru 8-9 mánuðir, en erlendis ertu kannski að byrja í námi í október, búinn í febrúar, byrjar aftur í mars og ert búinn í júlí. Þess á milli færði kannski vinnu eða starfsnám tengt náminu eða sækir fyrirlestra, þannig uppbyggingin er allt öðruvísi.“

Ásta Guðrún segir forsendubrestinn einnig vera fólginn í því að LÍN geri ráð fyrir því að allir nemendur hafi tök á að vinna þá mánuði sem þeir eru ekki í skólanum. „Það er bara forsenda sem er ekki endilega hægt að gefa sér. Þegar þú ert námsmaður erlendis er ekki einu sinni víst að þú megir vinna.“  

Nám erlendis á að vera hvetjandi

Ásta Guðrún setur einnig spurningamerki við þá greiningu sem LÍN byggir úthlutunarreglur sínar á. Hún segir til dæmis að það gangi einfaldlega ekki upp að námsmaður í Þýskalandi geti lifað á 860 evrum á mánuði. „Er startkostnaður reiknaður með til dæmis? Er verið að miða við 18 ára krakka sem eru að fara í skiptinám í fyrsta skipti eða er verið að miða við fullorðinn einstakling sem þarf að framfleyta sér? Það er eins og það sé í lagi að námsmenn séu að takmarka lífsgæði sín því við eigum að vera fátæk.“

Sjá frétt mbl.is: SÍNE setur fyrirvara á greiningu LÍN

Ásta Guðrún segir mikilvægt að það standi íslenskum nemum að stunda nám sitt, eða hluta þess, erlendis. „Ísland er takmarkandi, það er ekki allt í boði hérna en það er líka allt í lagi. Við erum lítið land og það er ef til vill betra að fólk geti sótt sér menntun erlendis. Við eigum að reyna að hvetja fólk til að fara út í nám. Miðað við hvernig úthlutunarreglur LÍN hafa verið undanfarin ár eru það ekki skilaboðin sem nemendur eru að fá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert