Dæmdar bætur vegna eftirlits

mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í dag íslenska ríkið til þess að greiða karlmanni 600 þúsund krónur með vöxtum í miskabætur vegna eftirlits sem hann sætti af hálfu lögreglu vegna sameiginlegrar rannsóknar nokkurra lögregluliða á Norðurlöndunum á ætluðum innflutningi á miklu magni fíkniefna frá Spáni til Danmerkur, Íslands og Noregs.

Heimild var fengin til þess að hlera símanúmer bróður mannsins en síðar kom í ljós að númerið var í eigu mannsins. Var þá fengin heimild til þess að hlera númer hans. Við hlerun lögreglu í íbúð systur mannsins vöknuðu grunsemdir um að hann væri ásamt bróður sínum að setja íblöndunarefni í fíkniefni og pakka í neytendaumbúðir.

Fram kemur í dómnum að rannsókn málsins hafi síðan leitt til handtöku þriggja manna og sakfellingar fyrir vörslu og innflutning á tugum kílóa amfetamíns. Bróðir mannsins hafi verið dæmdur til tólf ára fangelsisvistar. Maðurinn þvertók fyrir það í skýrslu fyrir dómi að hafa verið viðriðinn umrædd fíkniefnaviðskipti með nokkrum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert