Frambjóðendur bjartsýnir á framhaldið

mbl.is/Eggert

Frambjóðendur til embættis forseta Íslands eru staðráðnir í að halda áfram baráttunni þrátt fyrir að flestir þeirra mælist með lítið fylgi í skoðanakönnun MMR sem birt var í dag. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, nýtur mests fylgis samkvæmt könnuninni eða 52,6% en næstur kemur Andri Snær Magnason rithöfundur með 29,4%.

Halla Tómasdóttir frumkvöðull er með þriðja mesta fylgið samkvæmt könnuninni eða 8,8% en aðrir frambjóðendur eru með 1,7% eða minna fylgi. Reyndar eru þeir Bæring Ólafsson og Hrannar Pétursson hættir við framboð sitt en þeir mælast með fjórða og fimmta mesta fylgið. Ríkisútvarpið ræddi við frambjóðendur fyrr í dag sem sögðu kosningabaráttuna rétt vera að byrja og að lítið fylgi í könnunum hefði engin áhrif á þá.

Haft er eftir Andra Snæ að niðurstaða könnunarinnar sé ánægjuleg. Hann ætli að halda áfram að hitta fólk og ræða málin. Hann hafi alltaf reiknað með að þurfa að vinna sér inn traust fólks og hann ætli að halda því áfram. Halla tekur í svipaðan streng. Hennar kynningarstarf væri nýhafið og miðað við þau viðbrögð sem hún hefði fengið til þess væri hún bjartsýn á framhaldið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert