Frekar köld spá framundan

„Það verður einhver ofankoma á morgun allan daginn fyrir norðan og bætir síðan aðeins í um kvöldið norðaustanlands. Það mun ganga á með einhverri snjómuggu alla nóttina og morgundaginn. Þetta er ekki alveg vorveðrið sem við vorum að bíða eftir.“

Þetta segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. Hann segist aðspurður ekki reikna með að veðrið á morgun valdi neinum samgönguvandamálum. Það verði aðallega um að ræða snjómuggu. Veðrið næstu daga verði áfram kalt með slyddu og rigningu fyrir norðan og austan. Eftir helgi kólnar síðan og snjóar meira.

„Þannig að það er ekki alveg komið vor fyrir norðan ennþá. Frekar köld spá framundan og raunar er frekar kalt í Evrópu. Það virðist hvergi vera komið sérstakt vorveður. Það eru kaldir vindar sem blása um álfuna alla hreinlega. En maí er að koma, vonandi fer þetta eitthvað að batna þegar líður á mánuðinn. Hann byrjar kuldalega en fer síðan vonandi batnandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert