Ganga úr myrkri í ljós

Gengið verður í Laugardalnum. Mynd úr safni.
Gengið verður í Laugardalnum. Mynd úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Ákveðið hefur verið að halda fyrstu „Darkness into Light“ göngu Pieta á Íslandi aðfaranótt 7. maí næstkomandi, en þar verður gengin 5 kílómetra leið úr næturmyrkri inn í dagrenningu, úr myrkri í ljós, til fjáröflunar hjálparmiðstöðvar sjálfsvíga og sjálfsskaða. Einnig verður gengið til að minnast þeirra sem hafa farið úr sjálfsvígi og fyrir þá sem hafa öðlast von. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Pieta House var stofnað á Írlandi fyrir áratug af Joan Freeman, í kjölfar þess að systir hennar féll fyrir eigin hendi. Úrræðaleysi heilbrigðiskerfisins var hvatning til stofnunar samtakanna og er tilgangur þeirra að gefa von, hvetja til vitundarvakningar um sjálfsvíg og sjálfsskaða, standa fyrir fræðslu og rannsóknum og útvega sálfræðiaðstoð svo eitthvað sé nefnt.  Pieta Ísland hefur nú verið stofnað og stendur fyrir göngunni, sem gengin er á sama tíma í nokkrum löndum og er reiknað með að yfir 120.000 manns gangi úr myrkri inn í birtu á sama tíma.

„Við erum afskaplega þakklát Íslendingum fyrir stuðninginn,“ er haft eftir Freeman í tilkynningunni. „Kjarkur ykkar, framsýni og örlæti hafa hjálpað mörgum í Reykjavík og leitt til þess að fyrsta „Darkness into Light“ gangan verður farin á Íslandi."

Eins og áður sagði verður gengið í Reykjavík aðfaranótt 7. maí og hefst gangan kl. 04:00 við húsnæði KFUM og KFUK við Holtaveg í Laugardal.

„Gangan er liður í að halda umræðunni um sjálfsvíg opinni í þeim tilgangi að draga úr þeim og gefa von. Pieta Ísland hyggst stofna hjálparmiðstöð fyrir sjálfsvíg og sjálfsskaða sem þátttakendum gefst tækifæri til að styrkja,“ segir í tilkynningu en þátttökugjald er 3.500 kr.

Hægt er að skrá sig í gönguna og fá nánari upplýsingar á vefsíðu Pieta Ísland og á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert