Kveðja Hlemm eftir 37 ára þjónustu

Kristján Pétur Guðnasyni (til vinstri) á Hlemmi ásamt Gunnlaugi Jósefssyni, …
Kristján Pétur Guðnasyni (til vinstri) á Hlemmi ásamt Gunnlaugi Jósefssyni, starfsmanni Passamynda. mbl.is/Rax

Fjölmargir Íslendingar hafa í gegnum tíðina farið á Passamyndir á Hlemmi og látið smella af sér mynd. Nú verður breyting þar á því starfsemin hættir á föstudaginn eftir 37 ára dygga þjónustu og ógrynnin öll af ljósmyndum. 

Frá áramótum hafa Passamyndir verið eina starfandi fyrirtækið á Hlemmi en Reykjavíkurborg hefur tekið yfir húsnæðið á Hlemmi og ætlar að starfrækja þar veitinga- og matarmarkað í sumar.

Frétt mbl.is: Matarmarkaður verður á Hlemmi

Passamyndir hófu starfsemi á Hlemmi haustið 1979 en fyrirtækið var formlega stofnað árið eftir af Kristjáni Pétri Guðnasyni, ljósmyndara frá Akranesi. Það hefur lengi verið stærsta passamyndafyrirtækið  á landinu. Fyrst voru myndirnar teknar á „instant“ Polariod-filmu, þar sem hver taka mátti ekki misheppnast. Löngu síðar leystu stafrænu myndavélarnar þær af hólmi en þær hafa breytt ljósmyndalandslaginu svo um munar. Eftir að fólk þurfti að fara til sýslumanns til að taka myndir af sér fyrir vegabréf fyrir um 15 árum fækkaði myndatökunum þónokkuð og fóru mörg ljósmyndafyrirtæki á hausinn. Passamyndir héldu þó velli. 

Gunnlaugur Jósefsson smellir mynd af Kristjáni.
Gunnlaugur Jósefsson smellir mynd af Kristjáni. mbl.is/Rax


Stundum smá róstur

Kristján segir tímann á Hlemmi hafa verið einstaklega góðan og að öll samskipti hafi gengið vel, þrátt fyrir allan þann fjölda fólks sem hefur farið þar í gegn. „Við höfum aldrei lent í vandræðum með samskipti við fólk. Það hefur stundum verið smá róstur en það hefur aldrei bitnað á okkar kúnnum, ekki svo við vitum,“ segir hann. „Utangarðsmennirnir áttu þarna athvarf. Þeir komu alltaf á morgnana og koma enn. En það er enginn kaffistofa lengur og þeir hafa lítið að sækja á Hlemm.“

Kynntist utangarðsmönnum á farsóttarheimilinu

Kristján hafði áður komist í kynni við utangarðsmennina þegar hann hóf störf í Vernd árið 1969, skömmu eftir útskrift úr Samvinnuskólanum á Bifröst. „Þá um haustið áttuðu menn sig á því að allir utangarðsmenn bæjarins voru komnir á vergang og skildu ekkert í því. Þá kom í ljós að búið var að selja togarann Síríus við Grandagarð en þar höfðu þeir átt athvarf. Þá var farsóttarheimilinu „riggað“ upp og ég byrjaði að starfa þar sem vaktmaður á nóttunni,“ greinir hann frá. „Þar tók ég á móti utangarðsmönnunum og náði góðu sambandi við þá. Núna er komin sama staða. Það er búið að úthýsa þeim af Hlemmi. Úrræðum fyrir þetta fólk hefur fækkað."  

Matarmarkaður verður starfræktur á Hlemmi í sumar.
Matarmarkaður verður starfræktur á Hlemmi í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Illa staðið að málum

Að sögn Kristjáns hefur öll þjónusta við almenning á Hlemmi farið í gegnum Passamyndir undanfarna fjóra mánuði, eða síðan fyrirtækið varð eitt eftir í húsinu. Margir hafa spurt út í farmiðakaup og annað slíkt, enda engin þjónusta er þar lengur af hálfu Strætó. „Það hefur verið illa staðið að þessu, því miður. Ég er undrandi á því að það skuli ekki hafa verið betur gert við farþegana. Þeir hafa verið látnir vera hér fyrir utan og klósettmálin hafa líka verið í lamasessi.“

Ekki ýtt í burtu

Aðspurður segir hann ekki rétt að Reykjavíkurborg sé að ýta Passamyndum í burtu frá Hlemmi. Þessi tímamót séu einfaldlega hluti af skipulagsmálum. „Það er ekki hægt að kenna þeim um eitt eða neitt. Það er kannski löngu tímabært að taka Hlemm í gegn og gera eitthvað fyrir hann. Vonandi tekst matarmarkaðurinn vel og ég hef engar aðrar óskir en þær að þetta verði bara flott og það verði bæjarbragur á þessu,“ segir hann en tekur þó fram að honum og öðru starfsfólki Passamynda hafi sárnað viðskilnaðurinn svolítið.

Hluti af túristavæðingunni

Er það kannski tímanna tákn að Passamyndir séu að hverfa á braut frá Hlemmi?

„Já, þetta er hluti af þessari túristavæðingu í borginni. Það fer allt undir starfsemi sem heyrir undir ferðaiðnaðinn. Það fer kannski verða mjög einsleitt bæjarlífið. Ég er svolítið hræddur um að það verði ekkert áhugavert að labba um bæinn eftir nokkur ár.“

Þrátt fyrir að yfirgefa Hlemm eftir 37 ára starfsemi verða Passamyndir áfram með þjónustu annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Sjálfsafgreiðslukassar eru í Kringlunni, Smáralind og á Dalvegi í Kópavogi. Þar fyrir utan rekur Kristján ljósmyndafyrirtækið Skyggnu í Sundaborg.

Kristján Pétur fyrir utan Hlemm.
Kristján Pétur fyrir utan Hlemm. mbl.is/Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert