Lifir á 97.000 krónum á mánuði

Ásgeir Þór Magnússon, formaður Félags íslenskra læknanema í Slóvakíu, segir …
Ásgeir Þór Magnússon, formaður Félags íslenskra læknanema í Slóvakíu, segir nemendur erlendis ekki geta tekið við meiri niðurskurði frá LÍN. Fram­færsla ís­lenskra náms­manna er­lend­is mun lækka um allt að 20% á næsta skóla­ári.

Ásgeir Þór Magnússon er einn fjölmargra nemenda erlendis sem treysta á Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN) til að framfleyta sér á meðan námi stendur. Ásgeir stundar nám í læknisfræði við Jessenius Faculty of Medicine í bænum Martin í Slóvakíu og er að ljúka sínu öðru ári.

„Frá því að ég hóf nám við skólann hafa orðið miklar breytingar á mínum kjörum hjá LÍN. Við erum um það bil 70 íslenskir læknanemar hérna og sumir komnir ennþá lengra en ég í námi og breytingarnar sem hafa átt sér stað síðan þau byrjuðu eru ennþá verri. Til sögunnar má nefna til dæmis afnám ferðaláns, 29% skerðingu á framfærslu í okkar garð, lækkun á frítekjumarki og hækkun á lágmarks einingafjölda,“ segir Ásgeir í samtali við mbl.is.

Niðurskurðinum er ekki lokið, en LÍN tilkynnti nýlega að lán til fram­færslu ís­lenskra náms­manna er­lend­is munu lækka um allt að 20% á næsta skóla­ári sam­kvæmt nýj­um út­hlut­un­ar­regl­um sem tóku gildi 1. apríl.

40.000 krónur á mánuði eftir húsaleigu

Ásgeir, sem er jafnframt formaður Félags íslenskra læknanema í Slóvakíu, sér því fram á enn erfiðari vetur næsta skólaár. „Eins og staðan blasir við okkur læknanemum í Slóvakíu um þessar mundir þá munum við þurfa að sætta okkur við framfærslu upp á 3.450 evrur. Það eru um það vil 485.000 kr. sem gerir 97.000 krónur á mánuði. Í mínu tilfelli eftir leigu með hita og rafmagni þá standa eftir 40.000 krónur. Svo ef ég tek flugmiða til og frá Slóvakíu af neyslugjöldunum þá eru eftirstöðvar 26.000 krónur á mánuði. Í hvaða ævintýraheimi á ég að geta notað 26.000 krónur í mat, rándýran bókakostnað, samgöngur og fleira?“ spyr Ásgeir.

Ásgeir hefur átt regluleg samskipti við LÍN í nokkur ár og lýsir hann þeim sem stórfurðulegum, oftast nær. „Ég veit fyrir vissu að flestir sem nýta sér þjónustu LÍN deila mínum skoðunum í þeim efnum. Ég hringdi til að mynda um daginn og bað um útskýringu á nýju úthlutunarreglunum, svarið sem ég fékk um hæl var að það kæmi allt fram á heimasíðu sjóðsins, ég gæti kynnt mér úthlutunarreglurnar þar,“ segir Ásgeir.

Hann náði hins vegar að sannfæra þjónustufulltrúann um að aðstoða sig þar sem hann sagðist eiga í erfiðleikum með að skilja sum atriði. „Til að byrja með átti þjónustufulltrúinn sjálfur í erfiðleikum með að skilja skýrsluna svo að ég beið í dágóðan tíma þangað til að ég fékk útskýringu á mínu efni. Þetta er ein af mínum bestu reynslusögum af LÍN, ég fékk það sem ég sóttist eftir en ferlið var eins og vanalega óþarflega torsótt.“

Við útreikninga á nýjum úthlutunarreglum LÍN var notast við greiningu frá fyrirtækinu Analytica. Þar er meðal annars notast við framfærsluupplýsingar af vefsíðunni Numbeo.com og upplýsingar af heimasíðum viðeigandi háskóla. Samband íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE), setur fyrirvara á þessa greiningu LÍN og tekur Ásgeir undir þá gagnrýni, auk þess sem hann hefur kynnt hana sér nánar sjálfur.

„SÍNE er að vinna frábært starf í þágu erlendra námsmanna og deili ég þeirra skoðunum í hvert sinn. Ég fékk útskýringu á reiknilíkani Analytica á fundi sem ég átti með LÍN. Þar eru nokkrir fastar í jöfnunni og tvo af þeim taldi ég vert að skoða, annars vegar tölur frá numbeo.com og svo tölur uppgefnar frá háskólunum.“

LÍN hafði aldrei beint samband við skólann

Ásgeir var handviss um að um misskilning væri að ræða í tilfelli læknanema í Slóvakíu þegar kemur að upplýsingasöfnun um neyslugjöld í Martin. „Í fyrsta lagi þá fannst mér tölurnar frá háskólanum óþægilega lágar. Ég fór á fund með fulltrúum háskólans og spurði hver rök þeirra væru fyrir því að hafa tölurnar svona lágar. Þá var mér svarað um hæl að enginn á vegum LÍN né Analytica hafi nokkurn tímann haft samband við skólann og þau voru í það minnsta móðguð yfir vinnubrögðum sjóðsins. Svo þegar ég bar þessa staðreynd undir LÍN fékk ég það svar að tölurnar væru teknar af einhverri gamalli vefsíðu skólans.“

Í kjölfarið gerði Ásgeir sitt besta til að koma skólanum í samband við LÍN til þess að leiðrétta þessar tölur. „En því miður, mér til undrunar, þá hætti LÍN að svara mér.“

Ásgeir hélt hins vegar áfram að kynna sér vefsíðuna Numbeo og komst þá að því að hver sem er getur sett inn upplýsingar á síðuna. Þar er einnig gefinn sá fyrirvari að upplýsingarnar á síðunni er ekki metnar af sérfræðingum og sá sem notast við tölur frá síðunni geri það á eigin ábyrgð.

Þegar Ásgeir rýndi í tölurnar fyrir sinn skóla brá honum all verulega. „Fyrsta sem blasir við mér er viðvörun sem tilkynnir mér að einungis níu manns hafa gefið upp upplýsingar um Martin síðastliðna 18 mánuði. Í ljósi þessa staðreynda þá hugsaði ég með mér að ég gæti auðveldlega haft bein áhrif á reiknilíkan Analytica með því einungis að fá 100 manns með nettengingu til þess að skrá inn himinháar tölur fyrir Martin.“ Ásgeir hefur ekki enn heyrt frá LÍN.

Lánasjóður íslenskra námsmanna, LÍN.
Lánasjóður íslenskra námsmanna, LÍN. mbl.is/Árni Sæberg

Sér ekki framtíð á Íslandi

Ásgeir sér það eina í stöðunni að halda sínu striki og koma heim í sumar og nýta sumarfríið til að vinna. „En eins og staðan er í dag þá er framfærslan okkar langt í frá því að vera næg til þess að ná utan um það að eiga fyrir flugmiða til og frá Slóvakíu. Og því, undantekningarlaust, þarf ég aðstoð frá foreldrum mínum þegar það kemur að því að fljúga til og frá Slóvakíu.“

Varðandi framtíðina segir Ásgeir að það væri vitaskuld frábært að geta komið heim og gefið af sér í íslensku samfélagi. „En eins og staðan er í dag þá veit ég ekki hvort ég muni koma heim fyrir þær sakir að það er ómögulegt að halda náminu áfram hérna án þess að nýta sér aðrar leiðir til þess að fjármagna námið. Ég mun þurfa að leita á önnur mið hvort sem það sé yfirhöfuð raunhæfur möguleiki eða ekki. Þar sem að um leið og ég er farinn að leita á önnur mið þá er ég kominn í allt annann handlegg, styttri lán og mun hærri vexti. Takandi mið af því þyrftu ákvarðanir mínar eftir námið að einskorðast við þá hugsun að þéna sem mest og sem útskrifaður læknir þá væri það ekki á Íslandi. Fyrir utan það þá ætti ég hvort sem er ekki fyrir flugmiðanum heim.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert