Þjálfunarbannið hefur lítil áhrif

Flugstöð Leif Eiríkssonar.
Flugstöð Leif Eiríkssonar. mbl.is/Sigurður Bogi

Fyrirhugað þjálfunarbann Félags íslenskra flugumferðarstjóra í kjaradeilu þeirra við Isavia mun hafa lítil áhrif á flugfarþega, að minnsta kosti til að byrja með. Þetta segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia. Bannið á að taka gildi 6. maí næstkomandi.

Hann segir bannið engu að síður ekki vera góð tíðindi. „Ef þetta þjálfunarbann stendur lengi yfir getur það seinkað útskrift um nokkra mánuði, sem er óæskilegt. Þá er ekki hægt að fjölga flugumferðarstjórum jafnmikið og þörf er á. En þetta hefur engin á starfsemina núna,“ segir Guðni.

Frétt mbl.is: Boða þjálfunarbann 6. maí

Einn á næturvakt

Hann segir yfirvinnubann félagsins, sem sett var á 6. apríl,  vera erfiðara viðfangs því viðkvæmt ástandi geti myndast á Keflavíkurflugvelli. „Núna er ástandið þannig að það eru langtímaveikindi og á sumum næturvöktum er bara einn að störfum. Ef hann veikist er ekkert flug á næturnar. Það gæti haft áhrif á ferðaþjónustuna.“

Að sögn Guðna hafa áhrifin ekki verið mikil hingað til. Einhverjar seinkanir hafa verið og eitthvað af flugi hefur þurft að fara sunnan við íslenska flugstjórnarsvæðið til að minnka álag í flugstjórnarmiðstöðinni.

Töluvert er af næturflugi á Keflavíkurflugvelli, eða frá klukkan 21 á kvöldin til 7 á morgnana. Flug frá Evrópu koma á kvöldin og frá Ameríku snemma morguns. „Ef það koma upp veikindi á viðkvæmum næturkvöldum getur það seinkað fluginu.“

Of miklar kröfur

Hann segir að enn beri mikið í milli í viðræðum Isavia við Félag íslenskra flugumferðarstjóra. „Isavia og Samtök atvinnulífsins hafa lagt upp með svipaðan samning og hefur verið á almennum vinnumarkaði en kröfur flugumferðarstjóra eru langt umfram það.“

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia.
Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia. Mynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert