Gistinóttum fjölgaði um 34% í mars

Ferðamönnum heldur áfram að fjölga.
Ferðamönnum heldur áfram að fjölga. mbl.is/Styrmir Kári

Gríðarleg fjölgun ferðamanna heldur áfram og núna í mars fjölgaði gistinóttum hér á landi um 34% frá því í sama mánuði í fyrra. Gistinætur erlendra gesta voru 89% af heildarfjölda gistinátta og fjölgaði þeim um 37% milli ára. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 18%. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar.

Gistinætur á hótelum voru í marsmánuði samtals 295.300 talsins. Flestar þeirra voru á hótelum á höfuðborgarsvæðinu eða 205.500. Það er um 30% aukning frá því í mars í fyrra. Næstflestar gistinætur voru á Suðurlandi eða um 43.200. 

Bretar voru með flestar gistinætur í marsmánuði eða 86.000 talsins. Bandaríkjamenn komu næstir með 63.900 gistinætur og Þjóðverjar þar næst með 20.300 gistinætur.

Á tólf mánaða tímabili frá apríl 2015 til mars 2016 voru gistinætur á hótelum 3.043.700 sem er 26% aukning miðað við sama tímabil árið áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert