Gunnar Bragi fundaði með kollegum

Gunnar Bragi í Brussel.
Gunnar Bragi í Brussel. Ljósmynd/atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, átti fundi með sjávarútvegsráðherrum Noregs og Kanada í Brussel, þar sem ráðherrarnir sóttu sjávarútvegssýningarnar Seafood Expo Global og Seafood Processing Global.

Á fundi sínum með Hunter Tootoo, sjávarútvegsráðherra Kanada, voru til umræðu „tengsl Kanada og Íslands á sviði sjávarútvegs, umhverfismál og norðurslóðir auk þess sem þeir ræddu stjórnun fiskveiða til þess að tryggja sjálfbærni þeirra,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Í viðræðum Gunnars Braga og Per Sandberg ræddu þeir m.a. mikilvægi náins samstarfs þjóðanna á vettvangi sjávarútvegs og mikilvægi þess að tryggja skynsamlega nýtingu sjávarauðlindarinnar.“

Sjávarútvegssýningarnar í Brussel eru þær stærstu í heiminum en þar kynna yfir 1.700 fyrirtæki frá 75 löndum afurðir og tæknilausnir tengdar sjávarútvegi.

„„Það er einkar ánægjulegt að fá það staðfest á sýningu sem þessari, þar sem sjávarútvegsfyrirtæki frá öllum heiminum koma saman, hve íslenskur sjávarútvegur stendur framarlega. Gæði íslenskra sjávarafurða eru eins og þau gerast best sem sannast meðal annars á því hve Íslendingar fá hátt verð fyrir fiskafurðir sínar. Þá þykja margar íslenskar tæknilausnir við veiðar, meðferð afla og vinnslu hans vera í allra fremstu röð og nægir að líta til fyrirtækja á borð við Marel, 3X Technology, Skagans og fjölda annarra fyrirtækja í þessum efnum,“ er haft eftir Gunnari Braga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert