Hefur áhrif á fjórar vélar WOW air

Að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúi WOW air, segir takmörkun flugumferðar …
Að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúi WOW air, segir takmörkun flugumferðar hafa áhrif á komur fjögurra véla WOW air til landsins. Sverrir Vilhelmsson

„Það er varhugavert og umhugsunarefni ef starfsstétt getur nánast lokað landinu með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og kostnaði. Sérstaklega með tilliti til þess að ferðaþjónustan er langstærsta tekjulind þjóðarinnar,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, en takmörkuð flugumferð verður heimiluð um Keflavíkurflugvöll í kvöld og nótt.

ISAVIA hefur tilkynnt að vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra verði þjónusta á Keflavíkurflugvelli takmörkuð við sjúkra- og neyðarflug frá 21 í kvöld til 7 í fyrramálið. Ástæðan er að tveir flugumferðarstjórar sem áttu að vera á vaktinni í nótt eru veikir og vegna yfirvinnubanns fást ekki flugumferðarstjórar til afleysinga.

Að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúi WOW air, segir takmörkun flugumferðar hafa áhrif á komur fjögurra véla WOW air til landsins.

Vél frá Kaupmannahöfn hafi átti að lenda kl. 23:05, vél frá Brussel kl. 00:30, vél frá Boston kl.4:30 og vél frá Baltimore Washington flugvelli kl. 04:55.

„Þetta er mikill kostnaður fyrir WOW air, sérstaklega vegna keðjuverkunaráhrifa á áætlun félagsins,“ segir Svanhvít.

Í fréttatilkynningu ISAVIA segir að takmörkun flugumferðar muni að öllum líkindum hafa áhrif á 24 flugferðir.  Annars vegar er um að ræða miðnæturflug til og frá Evrópu og svo morgunflug frá Norður-Ameríku til Keflavíkurflugvallar og frá Keflavíkurflugvelli til Evrópu.

Yfirvinnubann Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) hefur staðið yfir frá 6. apríl, en kjaraviðræður FÍF og Samtaka Atvinnulífsins hafa staðið yfir frá því í nóvember á síðasta ári.

Uppfært kl. 17.12:

Þegar fréttin fyrir ofan birtist innihélt hún eftirfarand línur:

„Hún segir vélarnar sem koma áttu frá Kaupamannahöfn og Brussel verða erlendis yfir nóttina og að áætluð koma þeirra í Keflavík sé rétt eftir klukkan 7 í fyrramálið.

Brottförum frá Boston og Baltimore Washington flugvelli verði hins vegar seinkað svo að þær geti lent um klukkan 7 í fyrramálið.“

Þarna er verið að vísa í upplýsingafulltrúa WOW air, sem hefur síðan sett sig í samband við mbl.is og segir að verið sé að skoða málin og óvíst sé að þessar upplýsingar standist. Það muni ráðast af þróun mála.

mbl.is mun fylgjast með þróun mála í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert