„Í algjörum ólestri“

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýstu í dag yfir miklum áhyggjum af rekstri Reykjavíkurborgar, sem þeir segja hafa verið í algjörum ólestri á þessu kjörtímabili og því síðasta.

„Rekstrarniðurstaða upp á 13,6 milljarða kr. tap í A hluta er sláandi. Þó að stór hluti þess sé vegna hækkunar lífeyrisskuldbindinga er hinn almenni rekstur ekki í lagi séu þessar hækkanir dregnar frá þar sem þá hljóðar tapið upp á 1,3 milljarða kr,“ segir í tilkynningu frá borgarstjórnarhópi Sjálfstæðisflokksins.

Frétt mbl.is: Fimm milljarða halli hjá Reykjavík

Bókun sjálfstæðismanna í borgarráði í dag:

„Sem fyrr lýsa borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins yfir miklum áhyggjum af rekstri Reykjavíkurborgar sem hefur verið í algjörum ólestri allt þetta kjörtímabil sem og kjörtímabilið 2010-2014 í höndum Samfylkingar og Besta flokksins.  Rekstrarniðurstaðan er tap upp á 13,6 milljarða kr. A hluta er sláandi og þótt stór hluti þess sé einskiptis gjaldfærsla vegna hækkunar lífeyrisskuldbindinga er hinn almenni rekstur ekki í lagi séu þessar hækkanir dregnar frá en þá væri tapreksturinn 1,3 milljarðar kr.

Sést þetta enn betur með því að skoða veltufé frá rekstri sem segir hversu miklu fjármagni reksturinn skilar til fjárfestinga og greiðslu skulda. Veltufé frá rekstri er 5,7% af tekjum ársins en þyrfti að vera a.m.k. 9% þannig að reksturinn er langt frá því að skila nauðsynlegu framlagi. Niðurstaðan er enn eitt taprekstrarárið hjá núverandi meirihluta og forvera hans. Skuldaaukning A-hluta er 16,2 milljarðar kr. milli áranna 2014 og 2015.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert