Óljóst hvaða mál eru mikilvæg

Óttar Proppé, formaður Bjartar framtíðar.
Óttar Proppé, formaður Bjartar framtíðar. Styrmir Kári

Óljóst er hvaða mál ríkisstjórnarinnar eru það mikilvægt að engri annarri ríkisstjórn en þessari ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sé treystandi til að leiða þau til lykta. Þetta sagði Óttar Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, í óundirbúnum fyrirspurnartíma Alþingis, í dag.

Spurði hann Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, hvaða mál það væru sem væru svona mikilvæg af um 75 mála málaskrá ríkisstjórnarinnar.

Bjarni svaraði því að um væri að ræða mál sem hefðu verið í meðferð nefnda og mikill tími hefði farið í þau. Mikilvægustu málin væru afnám hafta, 5 ára efnahagsáætlun og fjármálastefna ríkisins, almannatryggingar, heilbrigðismál og jafnvel málefni íslenskra námsmanna.

Óttar sagði að í ljósi pólitískrar upplausnar með boðun kosninga í haust væri samt rétt að velta fyrir sér hvaða mál það væru sem væru það mikilvæg að núverandi ríkisstjórn þyrfti að flytja þau. Sagði hann sum mál jafnvel njóta þverpólitísks stuðnings og þannig hefði það verið um gjaldeyrishaftamálin hingað til. Sagði hann aftur á móti stór mál eins og húsnæðismálin frekar vera bitbein stjórnarflokkanna. Nefndi hann svo nokkur minni mál sem eru á dagskrá og spurði hvort aðrir flokkar gætu ekki afgreitt þau.

Bjarni sagði þetta ódýrt útspil hjá Óttari og sagði hann taka mál sem væru í vinnslu og gera lítið úr þeim og opinberum starfsmönnum sem hafa unnið að þeim.

Það mál sem væri mikilvægast þar sem hver dagur skipti máli væri aftur á móti afnám hafta. Sagði hann að ef hægt væri að klára það mál tveimur dögum fyrr þá væri það þess virði.

Þá sagði Bjarni að innan fárra vikna myndi útboð á svokallaðri snjóhengju, eða aflandskrónum, hefjast og það væri hluti af þessu stóra máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert