Samið um fríverslun við Filippseyjar

mbl.is/Hjörtur

Fríverslunarsamningur milli EFTA-ríkjanna, það er Noregs, Íslands, Liechtenstein og Sviss, og Filippseyja var í dag undirritaður í Bern í Sviss. Martin Eyjólfsson, fastafulltrúi Íslands gagnvart EFTA, undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd. 

„Þessi samningur EFTA-ríkjanna er fagnaðarefni; hann veitir íslenskum aðilum bættan aðgang að mörkuðum á Filippseyjum og felur í sér spennaandi tækifæri, m.a. í nýtingu jarðhita,“ segir Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Samningurinn kveði á um að tollar á íslenskar sjávarafurðir og iðnaðarvörur falli niður við innflutning til Filippseyja frá gildistöku samningsins eða á 5-10 ára aðlögunartímabili.

„Jafnframt munu ýmsar útflutningsafurðir íslensks landbúnaðar eins og lifandi hross, lambakjöt, ostar og vatn njóta tollfrelsis frá gildistöku samningsins eða að 5 árum liðnum. Þá munu samningsaðilar lækka eða fella niður tolla af ýmsum unnum landbúnaðarvörum. Fríverslunarsamningurinn gerir ráð fyrir auknu frjálsræði í þjónustuviðskiptum, meðal annars hvað varðar orkutengdra þjónustu og jarðhita. Filippseyjar eru í öðru sæti yfir ríki heimsins hvað varðar nýtingu jarðhita og hafa íslensk fyrirtæki á því sviði komið að ýmsum verkefnum þar undanfarin ár. Samningurinn nær jafnframt til verndunar hugverkaréttinda, samkeppnismála, sjálfbærrar þróunar og ákvæða um lausn ágreiningsmála,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Fram kemur að samningaviðræður hafi staðið yfir í tæplega eitt ár og að fullgilda þurfi hann í einstökum EFTA-ríkjum og á Filippseyjum áður en hann tekur formlega gildi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert