Sekt Valitors hækkuð á ný

Valitor var sakað um undirverðlagningu í tengslum við kortaþjónustu.
Valitor var sakað um undirverðlagningu í tengslum við kortaþjónustu. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Hæstiréttur hefur staðfest upphaflega sekt sem Samkeppniseftirlitið lagði á Valitor vegna brota á samkeppnislögum. Fyrirtækið þarf því að greiða hálfan milljarð króna í sekt fyrir að hafa misnotað markaðsráðandi stöðu sína en sektin hafði verið lækkuð um hundrað milljón krónur í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra.

Haustið 2013 staðfesti áfrýjunarnefnd samkeppnismála 500 milljón króna sekt á Valitor vegna alvarlegra samkeppnislagabrota. Í brotinu fólst m.a. að Valitor misnotaði trúnaðarupplýsingar um söluaðila í viðskiptum við keppinauta sína í færsluhirðingu sem félagið hafði aðgang að vegna stöðu sinnar í útgáfu VISA greiðslukorta hér á landi.

Háttsemi Valitors fólst í því að fyrirtækið verðlagði þjónustu sína í færsluhirðingu vegna debetkorta undir breytilegum kostnaði á árunum 2007 og 2008. Með þessari undirverðlagningu var félagið líklegra til að fá samninga við söluaðila um færsluhirðingu vegna kreditkorta sem talin er arðsamari þjónusta. Var umfang þessarar undirverðlagningar verulegt. Fól háttsemin einnig í sér brot á 54. gr. EES-samningsins.

Samkeppniseftirlitið komst einnig að þeirri niðurstöðu að Valitor hefði brotið gegn tveimur skilyrðum sem félagið hafði skuldbundið sig til að hlíta með sátt við Samkeppniseftirlitið sem birt var í ákvörðun nr. 4/​2008.

Héraðsdómur lækkaði sektina með dómi sínum í fyrra en nú hefur Hæstiréttur snúið þeim dómi við og dæmt Valitor til að greiða upphaflegu sektarupphæðina.

Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu vegna dómsins kemur fram að til rökstuðnings hækkun sekta byggi Hæstiréttur m.a. á því að brot Valitors hafi snert allan almenning í landinu, auk þess sem vísað sé til þess að fjárhagslegur styrkleiki Valitors og ávinningur af starfseminni á brotatímabilinu hafi verið verulegur. Jafnframt er litið til þess að stjórnvaldssekt í fyrra máli hafi ekki skilað þeim árangri að Valitor léti af samkeppnisbrotum. Er þetta hæsta sekt sem lögð hefur verið á íslenskt fyrirtæki vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu.

Samkvæmt dóminum ber Valitor að greiða Samkeppniseftirlitinu fjórar milljónir króna í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert