Vetrarveður og lokaðir vegir

Vetur konungur hefur ekki alveg yfirgefið Norðausturland og er nú …
Vetur konungur hefur ekki alveg yfirgefið Norðausturland og er nú allt á kafi í snjó við Mývatn og á heiðum á svæðinu. Mývatnsöræfi og Fjarðarheiði eru lokuð. Rax / Ragnar Axelsson

Nóg var að gera hjá lögreglu og björgunarsveitum í nótt á Norðausturlandi en talsvert var um útköll tengd ófærð og veðri. Í gær fór snjó að kyngja niður á svæðinu og er lögreglan á Húsavík þannig með skráð sex útköll vegna ófærðar.

Málin voru þó að sögn lögreglunnar eitthvað fleiri í heildina. Helmingur útkallanna var vegna fastra bíla ferðamanna á Dettifossvegi, en sá vegur var lokaður.

Þá er búið að loka þjóðvegi 1 frá Mývatni niður á Jökuldal, eða um Mývatnsöræfi. Fjarðarheiði milli Egilsstaða og Seyðisfjarðar er einnig lokuð og þá er þæfingur á fleiri vegum á Austur og Norðausturlandi.

Á Akureyri frysti vel í nótt og segir lögreglan að það sé hálka og vetrarfærð. Nóttin var þó róleg í því umdæmi.

Mynd/Vegagerðin

Uppfært kl 7:17:

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru allir vegir greiðfærir á Suður- og Vesturlandi, en þó hálkublettir á Holtavörðuheiði.

Á Vestfjörðum er hálka á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum. Hálkublettir eru í Ísafjarðardjúpi og á Innstrandavegi.

Á Norðurlandi vestra er hálka á Þverárfjalli og á Öxnadalsheiði og eitthvað um hálkubletti á láglendi.

Á Norðausturlandi er hálka, snjóþekja og eitthvað um éljagang. Ófært er á Mývatnsöræfum, Dettifossvegi, Hófaskarði og Hálsum.

Á Austurlandi er ófært á Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði, Sandvíkurheiði, Vatnsskarði eystra, Breiðdalsheiði og Öxi. Þungfært og skafrenningur er á Fjarðarheiði en hálka á Oddsskarði annars er snjóþekja eða hálkublettir á láglendi.

Greiðfært er með Suðausturströndinni frá Djúpavogi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert