Ísland verði vettvangur til að stilla til friðar

Johan Galtung, átaka- og friðarfræðingur, er staddur hér á landi.
Johan Galtung, átaka- og friðarfræðingur, er staddur hér á landi. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

„Ísland getur orðið frábær staður fyrir frið og því þarf að tala um það og hvað það þýðir. Ykkur eru í raun engin mörk sett í þessu en til þess að geta stillt til friðar í deilum annarra verðið þið að sýna getu ykkar á því sviði svo traust geti skapast,“ segir Johan Galtung, stærðfræðingur, félagsfræðingur, stjórnmálafræðingur og einn áhrifamesti fræðimaður heims í átaka- og friðarfræðum, en hann er í heimsókn hér á landi. Mun hann meðal annars kynna hugmynd sína um að Ísland verði gert að friðarríki þar sem stofnuð yrði málamiðlunarmiðstöð í Reykjavík, eða Reykjavík Mediation Center (RMC).

Galtung stofnaði samtök um sáttamiðlun árið 1993 sem starfa um allan heim, en hann hóf störf á þessu sviði árið 1959 með stofnun fyrstu rannsóknarstofnunar heims í átaka- og friðarfræðum.

Hann mun halda fyrirlestur í samvinnu við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands í dag og hefst hann kl. 12 í Odda 101 í Háskóla Íslands. Þar mun hann einnig ræða um friðarkenningu sína og friðinn í neikvæðu og jákvæðu ljósi. Þá mun hann einnig koma fyrir utanríkismálanefnd Alþingis í dag til að útskýra hugmyndir sínar og hvað þær gætu þýtt í framkvæmd.

Gott orðspor Reykjavíkur

„Þetta yrði vettvangur til að stilla til friðar í heiminum. Hingað kæmu deiluaðilar og dveldu í lengri tíma í þeim tilgangi að finna lausn í átökum sín á milli, svipað og þegar Reagan og Gorbatsjov komu hingað árið 1986, en sá fundur var lóð á vogarskálar þess að kalda stríðið leið undir lok.“

Margir telji að annað kalt stríð sé handan við hornið eða þriðja heimsstyrjöldin og því sé enn frekari ástæða til að ræða þessi mál nú. Segir hann Reykjavík hafa á sér gott orð ásamt því að landfræðileg lega landsins geri það einnig afar vel til þess fallið að sinna málamiðlun milli austurs og vesturs.

„Friðarríkið Ísland gæti þó ekki tekið þátt í hernaðarsamstarfi með mestu ófriðarseggjum heims og ætti því að segja sig frá því með vinalegum hætti,“ segir Galtung enn fremur og á þar við varnarsamstarf Íslands með löndum Atlantshafsbandalagsins. Hægt væri að hvetja Bandaríkin til að koma að stofnun RMC á Íslandi og taka þátt í friðarviðræðum á ýmsum grundvelli. „Tilvalið væri að fylgja þessu svo eftir með því að bjóða hingað fulltrúum frá Washington, Kíev, Moskvu og Donetsk til að leita sátta varðandi málefni Úkraínu.“

Hlusta þarf á báða

„Mín reynsla er sú að allir hafi eitthvað til síns máls. Ég spyr því deiluaðila hvernig þeir gætu byggt á því sem hinn hefur lagt til, kanna svo réttmæti tillögunnar með tilliti til laga, mannréttinda og grunnþarfa og í lokin legg ég svo til einhverja lausn vandans,“ segir Galtung, en hann gæti þess að koma eingöngu með tillögu en ekki þröngva skoðunum sínum upp á deiluaðila. Hann hefur meðal annars unnið að friði í Úkraínu og Afganistan og rætt þar við stríðandi öfl.

Þá hefur hann gert greinarmun á milli neikvæðs og jákvæðs friðar. „Neikvæður friður dregur úr ofbeldinu en jákvæður friður tengir lönd saman í samstarfi og samlyndi. Þetta er hægt að gera á sama tíma en það þarf að hafa þekkingu á því hvernig þetta er gert.“

Um þetta fjallaði hann í fyrirlestri sínum í dag í Háskóla Íslands ásamt því að upplýsa um friðarformúlu sína. „Það þarf meðal annars að hlusta á báða aðila og athuga hvort hægt sé að samtvinna óskir beggja – þ.e. margfalda sanngirni með samhygð, deila því með áföllum og margfalda með löndunum.“

Faðirinn fangi nasista

Áhugi Galtung á því að stilla til friðar og leysa átök kviknaði á unga aldri. „Þetta er einfalt. Ástkær faðir minn var handtekinn af þýsku Gestapo-lögreglunni þegar ég var um ellefu ára gamall í Noregi. Við vorum ekki bara hrædd um að hann yrði pyntaður heldur að hann yrði notaður sem gísl gegn sprengingum Breta og tekinn af lífi. Á hverjum morgni í fjórtán mánuði áttum við von á því að lesa um aftöku hans í blöðunum. Mamma hafði það ekki í sér að athuga svo ég var sendur á hverjum morgni að ná í blöðin,“ segir Galtung, en þegar faðir hans hafi sloppið úr haldi hafi hann hugsað með sér að eitthvað yrði að breytast.

„Niðurstaða mín var að vinna að friði í stað þess að ganga í hernaðarsamstarf.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert