12 ára í megrunarklúbbi

Sólveig Sigurðardóttir
Sólveig Sigurðardóttir mbl.is/Styrmir Kári

Sólveig Sigurðardóttir hóf að feta heilsuveginn fyrir um fjórum árum og hefur uppskorið gerbreytt líf. Hún hefur lést um 50 kg og er nú lyfjalaus en hún er með MS-sjúkdóminn, vefjagigt og rósroða. Hún var tíu ára þegar hún fór að bæta á sig og var fljótlega send í megrunarklúbbinn Línuna.

„Ég var svona tíu ára þegar ég fór að bæta á mig og tólf ára þegar ég var látin fara í Línuna í Hafnarfirði,“ segir hún en Línan var megrunarklúbbur. „Fullorðnir og börn voru saman í hópi. Maður var alveg með hjartað í buxunum um hvort maður hefði lést eða fitnað. Ef maður léttist um einhver grömm þá var klappað en ef maður þyngdist þá var púað og þetta var stór hópur,“ segir hún og var þetta því neikvæð upplifun.

Núna á hún í jákvæðu sambandi við mat og hefur unun að útbúa og framreiða fallegan og heilsusamlegan mat en hún deilir uppskriftum og hugleiðingum á Facebook-síðunni Lífsstíll Sólveigar.

Eftir að Sólveig náði að umbylta lífi sínu hafa margir óskað eftir því að hún gerðist talsmaður töfralausna og megrunarpilla en slíkum beiðnum hefur hún neitað. 

„Það er enn verið að hafa samband við mig. Meira að segja eitt stærsta lyfjafyrirtæki í heiminum hafði samband og spurði hvort ég vildi ekki koma til London því það væri verið að gera mynd um breyttan lífsstíl og breytt mataræði,“ segir Sólveig sem fannst þetta hljóma of vel til að vera satt og gekk á fólk til að fá svör. Hún vildi fá að vita í hvað þetta yrði notað. „Ég sagðist ætla að gera þetta en ég vildi þá fá uppáskrifað að þetta yrði ekki notað í neinum auglýsingum fyrir neinar töflur. Þá var svarið að ekki væri hægt að lofa því,“ segir Sólveig sem ákvað því að vera ekki með.

Sólveig er í ítarlegu viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins um helgina.

Sólveig Sigurðardóttir.
Sólveig Sigurðardóttir. mbl.is/Styrmir Kári
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert