Aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum samþykkt

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Tillaga Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára var samþykkt á Alþingi í dag. Stefnan felur í sér framtíðarsýn og skilgreind markmið um bætta geðheilbrigðisþjónustu. Heildarkostnaður aðgerða við framkvæmd stefnunnar er áætlaður rúmar 560 milljónir króna.

Í frétt á vef velferðarráðuneytisins segir að meginmarkmið stefnunnar sé að stuðla að aukinni vellíðan og betri geðheilsu landsmanna og virkari samfélagsþátttöku einstaklinga sem glíma við geðraskanir til lengri eða skemmri tíma, óháð búsetu þeirra. Í því skyni eru sett fram undirmarkmið sem fela í sér að þjónusta við einstaklinga sé samþætt og samfelld, að uppeldisskilyrði barna stuðli að vellíðan þeirra og að einstaklingum sé ekki mismunað á grundvelli geðheilsu.

Til að ná framantöldum markmiðum er m.a. lagt til að lögfest verði skylda um að ríki og sveitarfélög geri með sér samkomulag um hvernig þau muni sinna sameiginlega þjónustu við fólk með geðvanda. Þá er lagt til að framboð sálfræðiþjónustu í heilsugæslu verði aukið, komið verði á fót geðheilsuteymum, barna- og unglingageðdeild Landspítala verði styrkt og einnig að stuðningur við börn sem eiga foreldra með geðvanda verði aukinn. Loks er tillaga um að byggja upp þekkingu starfsfólks á hjúkrunarheimilum vegna þjónustu við íbúa með geðraskanir.

Teymi sinni ráðgjöf til foreldra

Aðgerðir varðandi bætt uppeldisskilyrði barna byggjast einkum á forvörnum, segir í frétt ráðuneytisins. Lagt er til m.a. að teymi verði stofnað til að sinna ráðgjöf og styðja foreldra og fjölskyldur, stuðlað verði að markvissri geðrækt í skólum, skimað verði fyrir kvíða og þunglyndi meðal grunnskólabarna og viðeigandi meðferð veitt eftir þörfum og leitað verði árangursríkra meðferða til að draga úr sjálfsvígum meðal ungmenna.

Áhersla er lögð á aðgerðir til að draga úr fordómum og mismunun í garð fólks með geðraskanir, m.a. með gerð leiðbeininga fyrir þá sem fjalla um mál fólks með geðvanda o.fl.

Velferðarráðuneytið mun hafa heildarumsjón með framkvæmd stefnunnar og er gert ráð fyrir að við gerð fjárlaga hvers árs verði kostnaður aðgerða endurmetinn. Samkvæmt fyrirliggjandi mati er heildarkostnaður áætlaður rúmar 560 milljónir króna. Vega þar þyngst geðheilsuteymin, kostnaður vegna ráðninga sálfræðinga á heilsugæslustöðvar og efling þjónustu barna- og unglingageðdeildar LSH.

„Mikill ávinningur fyrir alla“

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir það mikinn ávinning fyrir alla að nú liggi fyrir skýr stefna í þessum mikilvæga málaflokki. „Nú höfum við eitthvað fast í hendi til að byggja á. Það er í þágu þeirra sem þurfa þjónustu, það er gagnlegt fyrir þjónustuveitendur og aðra þá sem vilja fylgja málum eftir og veita stjórnvöldum aðhald og það er mikilvægt fyrir þá sem fara með yfirstjórn þessara mála sem hafa þá góðan grunn til að byggja á ákvarðanir sínar,“ er haft eftir Kristjáni í fréttatilkynningunni.

Stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum sem Alþingi hefur nú samþykkt var lögð fram í nóvember á síðasta ári. Með vísan til hennar ákvað heilbrigðisráðherra að hefja uppbyggingu sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni og voru veittar tæpar 70 milljónir króna í því skyni í fjárlögum þessa árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert