Bjartviðri víða á landinu í dag

Þrátt fyrir frekar kalt veður má gera ráð fyrir að …
Þrátt fyrir frekar kalt veður má gera ráð fyrir að bjart verði víða á landinu í dag. Næstu dagar eru aftur á móti ekkert of spennandi og litlar líkur á að sumarið fari að láta sjá sig alveg strax. Ómar Óskarsson

Búast má við bjartviðri víða á landinu í dag þótt hitastig verði áfram í lægri kantinum, eða frá frostmarki upp í 8 gráður. Á Norður- og Austurlandi má þó búast við norðvestan 8-13 metrum á sekúndu og snjókomu. Þegar líður á daginn dregur úr vindi og rafar smám saman til. Í nótt gengur svo í norðvestan 10-15 metra á sekúndu með slyddu og snjókomu Norðan- og Austanlands.

Á höfuðborgarsvæðinu er spáð norðvestan 5-8 metrum á sekúndu og skýjað með köflum. Eftir hádegi ætti þó að sjást vel til sólar. Með kvöldinu lægir og hiti verður á bilinu 1-6 gráður.

Á laugardaginn er spáð norðaustan- og norðanátt, 8-13 metrum á sekúndu og slyddu eða rigningu norðantil á landinu. Sunnan jökla verður aftur á móti skýjað með köflum og úrkomulítið. Hiti 1-8 gráður, mildast sunnantil.

Á sunnudaginn má gera ráð fyrir dálítilli rigningu með köflum og slyddu til fjalla. Hiti 1-9 stig, mildast á Vesturlandi.

Í næstu viku er spáð allhvassri og svalri norðanátt með slyddu eða snjókomu norðanlands, en þurrviðri og mildara syðra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert