Dánartíðni vegna Alzheimers sjöfaldast

Illkyna æxli og hjartasjúkdómar eru algengustu dánarmein Íslendinga en Alzheimers …
Illkyna æxli og hjartasjúkdómar eru algengustu dánarmein Íslendinga en Alzheimers hefur sótt í sig veðrið. AFP

Alzheimerssjúkdómurinn var undirliggjandi dánarorsök 128 Íslendinga árið 2014 samkvæmt tölum landlæknisembættisins. Aldursstöðluð dánartíðni sjúkdómsins hér á landi sjöfaldaðist frá árinu 1996 þegar tólf mans létust af völdum hans. Orsökin er sögð betri greining á sjúkdómnum.

AF þessum 128 einstaklingum voru 99 (77,3%) áttræðir eða eldri. Aldursbundin dánartíðni í þessum aldurshópi hefur aukist úr 111,2 á hverja íbúa árið 1996 í 829,5 árið 2014.

Þessar tölur koma fram í grein um algengustu dánarmein Íslendinga í Talnabrunni, fréttabréfi landlæknis um heilbrigðisupplýsingar. Embættið hefur reiknað út svonefna aldursstaðlaða dánartíðni í tíu völdum flokkum dánarmeina árið 1996-2014. Aldursstöðlunin er reiknuð út frá tilteknu staðalþýði og á að eyða mun sem tilkominn er vegna ólíkrar aldurssamsetningar frá einum tíma til annars eða á milli hópa.

Æxli og hjartaáföll algengust

Þannig var aldursstöðluð dánartíðni karla á Íslandi árið 2014 hæst í flokki illkynja æxla en 223,5 karlmenn létust á hverja 100.000 íbúa. Þar á eftir komu hjartasjúkdómar með 201,1 dauðsfalla á 100.000 íbúa og heilaæðasjúkdómar með 45,3 dauðsföll.

Hjá konum voru illkynja æxli (164,2) og hjartasjúkdómar (101,2) einnig algengustu banameinin. Þar á eftir kom Alzheimers með 37,8 dauðsföll á hverja 100.000 íbúa.

Eins og áður segir sjöfaldaðist aldursstöðluð dánartíðni Alzheimerssjúkdómsins frá árinu 1996 til 2014. Fyrir tuttugu árum var tíðnin 5,6 á hverja 100.000 íbúa en fyrir tveimur árum var hún 39,1.

Tíðnin jókst meira hjá körlum en konum. Hjá körlunum fór hún úr 3,4 í 40,7 á hverja 100.000 íbúa en úr 6,8 í 37,8 hjá konum. Sambærilega aukningu má sjá í tölfræði annarra landa, að því er kemur fram í Talnabrunninum. Í Svíþjóð ferfaldaðist tíðnin frá 1998 til 2014 og í Bandaríkjunum jókst hún um tæp 40% frá 2000 til 2010.

Ástæður breytinganna á dánartíðni Alzheimers eru sagðar bætt greining á sjúkdómnum á tímabilinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert