„Ég fékk bara nei“

mbl.is/Hjörtur

Íslenskur læknanemi í Noregi sér fram á að þurfa að taka bankalán til þess að geta farið í sumarskóla í Ungverjalandi sem er henni nauðsynlegur til þess að klára fyrsta námsárið sitt. LÍN, lánasjóður íslenskra námsmanna, segist ekki geta lánað henni fyrir sumarskólanum nema þá mögulega með því að skerða námsgjaldalán hennar fyrir næsta ár.

Að sögn Rakelar Bjargar Kristjónsdóttur kom það skýrt fram í öllum gögnum þegar hún sótti um lánið hjá LÍN á sínum tíma að þessi sumarskóli væri hluti af náminu. LÍN lítur þó svo á að ekki sé hægt að lána henni fyrir sumarskólanum því hann nær ekki upp í fimmtán einingar. „En ég útskýrði hinsvegar að þetta væri hluti af náminu mínu, þetta eru ekki aukaeiningar og gera það ekki að verkum að ég klári námið með meira eða minna en þær 360 einingar sem ég þarf til að útskrifast. Ég reyndi mitt besta að útskýra þetta en ég fékk bara nei,“ segir Rakel í samtali við mbl.is.

Segja námið líklega ekki lánshæft

Að sögn Rakelar sagði fulltrúi LÍN sem hún ræddi við að hefði stofnunin vitað af þessum sumarskóla hefði námslánið líklega ekki verið samþykkt. Sagðist hún jafnframt efast um að nám Rakelar væri yfir höfuð lánshæft.

„Þetta sýnir bara að LÍN hefur ekki verið að skoða gögnin þegar ég sótti um en þar kom greinilega fram að þessi sumarskóli væri skylda,“ segir Rakel. „Ég bendi fulltrúanum á það sem sér síðan eftir smá leit í gögnunum minnst á hann. Þá segir hún að lánið hennar hefði líklega ekki verið samþykkt hefði starfsfólk sjóðsins áttað sig á sumarskólanum.“

Fær kannski svar í júní

Eins og fyrr segir er möguleiki á að Rakel verði veitt lán fyrir sumarskólanum en þá myndi skólagjaldalánin hennar skerðast fyrir næsta ár. Það verður þó að vera tekið fyrir stjórn en næsti stjórnarfundur er 22. júní en Rakel á að fara út til Ungverjalands 11. júlí.

„Hún sagði að ég fengi kannski svar í júní en hún sagði það yfirhöfuð ekki líklegt að ég fengi lán fyrir þessu. Ég bara veit ekki hvað ég á að gera því ef ég tek ekki þennan sumarskóla fæ ég ekki fyrsta árið mitt metið,“ segir Rakel.

Rakel segir það eina sem hún sjái í stöðunni er að sækjast eftir láni annarsstaðar. „Ég er búin að tala við Framtíðina [námslánasjóð GAMMA] og þau voru voðalega indæl og ætluðu að reyna að hjálpa mér. Annars er það eina í stöðunni að tala við banka.“

Sumarskólinn kostar á núverandi gengi rúmar 293 þúsund krónur en skólagjöldin fyrir næstu önn er um milljón. Það mun þá augljóslega hafa slæm áhrif á fjárhag Rakelar ef það lán er skert. „Þá er þetta bara vonlaust,“ segir Rakel.

Rakel segir að það hafi komið skýrt fram í öllum …
Rakel segir að það hafi komið skýrt fram í öllum gögnum þegar hún sótti um lánið hjá LÍN á sínum tíma að umræddur sumarskóli væri hluti af náminu. Ljósmynd úr einkasafni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert