Fleiri ný félög og færri gjaldþrot

Hlutfallslega flest ný félög eru skráð í flokki fasteignaviðskipta eða …
Hlutfallslega flest ný félög eru skráð í flokki fasteignaviðskipta eða leigustarfsemi. mbl.is/Ómar

Nýskráningar einkahlutafélaga í mars 2016 voru 261 og hafa alls 2.465 ný einkafélög verið skráð á síðustu 12 mánuðum. Það er 14% fjölgun frá því árinu á undan þegar 2.161 félag var skráð. Gjaldþrotum hefur aftur á móti fækkað á síðasta ári. Fjöldi gjaldþrota í mars var 120 og yfir síðasta árið voru þau 673. Árið á undan voru þau 792 talsins. Þetta kemur fram í tölum Hagstofunnar.

Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga var mest í fasteignaviðskiptum þar sem þeim fjölgar úr 230 í 394, eða um 71% á síðustu 12 mánuðum. Meðal annarra greina þar sem nýskráningum hefur fjölgað má nefna leigustarfsemi og ýmsa sérhæfða þjónustu þar sem nýskráningum fjölgaði úr 157 í 204, eða um 30% og rekstur gististaða og veitingarekstur þar sem fjölgunin var úr 142 í 172 nýskráningar, eða 21%.

Mest hlutfallsleg fækkun nýskráninga síðustu 12 mánuði var í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum, eða um 7% frá fyrra tímabili og fór úr 285 í 266.

Hlutfallslega fækkaði gjaldþrotum mest í fasteignaviðskiptum, úr 95 í 62, eða um 35%. Einnig má nefna fækkun gjaldþrota í rekstri gististaða og veitingarekstri úr 66 í 45, eða 32%, auk þess að í landbúnaði, skógrækt og fiskveiðum fækkaði gjaldþrotum úr 26 í 18, sem nemur 31%.

Gjaldþrotum fækkaði frá fyrri 12 mánuðum í öllum helstu atvinnugreinabálkum nema í leigustarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu, þar sem þeim fjölgaði um 6% frá fyrra tímabili og fóru úr 34 í 36.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert