Gagnalekinn olli þjáningu og vanlíðan

Á meðal meðal stolinna gagna sem tölvuþrjóturinn komst yfir í …
Á meðal meðal stolinna gagna sem tölvuþrjóturinn komst yfir í lok nóvember 2013 voru 79 þúsund SMS-skeyti, notendanöfn og lykilorð að Mínum síðum Vodafone. mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í vikunni Fjarskipti, eiganda Vodafone, til að greiða þremur einstaklingum samtals 2,7 milljónir í skaðabætur vegna gagnaleka sem varð í nóvember 2013. Héraðsdómur segir í dómunum, sem hafa nú verið birtir, að lekinn hafi m.a. valdið fólkinu óþægindum, vanlíðan og andlegum þjáningum.

Aðfaranótt 30. nóvember 2013 braust óþekktur tölvuþrjótur inn á vefsíðu Vodafone með því að notfæra sér áður óþekktan veikleika í öryggi vefsíðunnar. Í innbrotinu komst tölvuþrjóturinn yfir þriggja ára sögu SMS-skilaboða allra viðskiptavina fyrirtækisins sem vistað höfðu smáskilaboð sín á „Mínum síðum“ Vodafone, auk ódulkóðaðra lykilorða umræddra viðskiptavina.

Alls voru fimm skaðabótamál höfðuð gegn Fjarskiptum vegna atviksins en héraðsdómur sýknaði fyrirtækið í tveimur málum í fimm dómum sem féllu sl. þriðjudag. Samtals kröfðust einstaklingarnir 103.800.000 kr. í bætur.

Héraðsdómur dæmdi fyrirtækið hins vegar til að greiða einni konu 1,5 milljónir í miskabætur, manni eina milljón í bætur og annarri konu voru dæmdar 200.000 kr. í miskabætur.

Viðkvæmar persónuupplýsingar

Í dómi konunnar sem hlaut hæstu bæturnar, segir m.a. að það liggi fyrir að Fjarskipti hafi ekki upplýst móttakendur SMS-skilaboða sem send hafi verið frá „Mínum síðum“ um vörslu þeirra á „Mínum síðum“ og áttu þeir þess ekki kost að eyða þeim eða upplýsingum um símanúmer sitt sem móttakanda úr gagnagrunninum á vefsvæði fyrirtækisins. Samþykkis notandans hafi samkvæmt því ekki verið aflað til vistunar á vefsíðu fyrirtækisins á þeim skilaboðum sem konan fékk send, en þau voru 2287 talsins samkvæmt gögnum málsins.

Það var því niðurstaða héraðsdóms í máli konunnar að varðveisla SMS-skilaboðanna á vefsíðu fyrirtækisins án viðhlítandi samþykkis hafi frá upphafi falið í sér brot gegn lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Héraðsdómur segir það fá sannfærandi stoð í gögnum málsins að umrædd atvik hafi valdið konunni verulegum óþægindum, vanlíðan og andlegum þjáningum. Opinberun upplýsinganna, þar með talið viðkvæmra persónuupplýsinga hafi falið í sér rof á friðhelgi einkalífs konunnar, sé til þess fallin að rýra orðspor hennar og hefur að mati dómsins valdið henni verulegum miska. Hér var um að ræða ólögmæta meingerð af hendi fyrirtækisins gegn persónu konunnar í skilningi skaðabótalaga og ber fyrirtækinu af þeim sökum að greiða konunni miskabætur.

Var sagt upp störfum í kjölfar lekans

Í dómi mannsins sem hlaust næst hæstu bæturnar segir m.a., að hann hafi komið fyrir dóm við aðalmeðferð málsins og lýst því að hann hefði orðið fyrir áfalli þegar hann gerði sér grein fyrir umfangi upplýsinganna og því að tugþúsundir manna væru að velta sér upp úr samskiptum hans og unnustu hans. Notuð hafi verið SMS-skilaboð milli hans og fyrrum eiginkonu um syni þeirra og önnur atriði tengd skilnaði þeirra sérstaklega til þess að halda þeim utan við ágreiningsefni, en þeir hafi komist í skilaboðin og lent í leiðindum þar sem skólafélagar þeirra gerðu það líka. Þetta hafi verið gríðarlega óþægilegt og virðing hans hafi beðið hnekki. Þá hafi skilaboð til kunningja verið rangtúlkuð á þann veg að þeir tengdust fíkniefnamálum og kvaðst maðurinn hafa orðið fyrir óþægindum og spurningum vegna þess, m.a. frá fjölmiðlum og vinnufélögum.

Skilaboð varðandi fjármál í tengslum við uppgjör við eiginkonu hafi verið bagalegt fyrir hann sem sérfræðings að kæmu fyrir almenningssjónir. Honum hafi verið sagt upp störfum, án þess að þessi atvik væru tilgreind ástæða, en honum hafi fundist að tækifærið hafi verið nýtt til að losa sig við hann. Gagnalekinn hafi valdið honum mikilli vanlíðan og álitshnekki. 

Héraðsdómur segir að það fái sannfærandi stoð í gögnum málsins og framburði fyrir dómi að umrædd atvik hafi valdið manninum verulegri vanlíðan og óþægindum. Opinberun upplýsinganna, þar með talið viðkvæmra persónuupplýsinga hafi falið í sér rof á friðhelgi einkalífs mannsins, sé til þess fallin að rýra orðspor hans og hefur að mati dómsins valdið honum talverðum miska. 

Viðkvæmar upplýsingar um trúarskoðanir og fjárhagserfiðleika

Í dómi konunnar sem hlaut lægstu bæturnar segir m.a., að viðkvæmar persónuupplýsingar sem varða trúarskoðanir hennar komust í dreifingu vegna málsins. Þá voru upplýsingar um fjárhagsörðugleika hennar að finna í skilaboðum sem hún sendi.

Héraðsdómur segir það fá stoð í gögnum málsins, og trúverðugum framburði konunnar fyrir dómi, að umrædd atvik hafi valdið henni óþægindum og vanlíðan. Opinberun upplýsinga um fjárhag og viðkvæmra persónuupplýsinga um trúarskoðanir, hafi falið í sér rof á friðhelgi einkalífs konunnar, sem sé að mati dómsins til þess fallið að valda henni miska. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert