Helgi Hrafn: Vill breytt hlutverk forseta

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, vill breyta hlutverki forseta. Hann vill að forseti hafi fyrst og fremst athafnahlutverk. „Það þarf einhver að fara í fín kokteilboð,“ segir Helgi í viðtali í Fréttablaðinu í dag. Spurður hvort hann vilji leggja forsetaembættið niður svarar hann: „Ekki strax.“

Helgi segir að Ólafur Ragnar Grímsson hafi „gert góða hluti en eðli embættisins á ekki að þróast í þá átt að líkjast konungsveldi. Þarna er komið vald til eins manns og það er komið þangað vegna konunglegrar arfleifðar. Mér finnst það vandamál.“

Helgi segir að sér finnist ekki að stjórnmálaflokkur eigi að vera með skoðun á því hver sé forseti. „Á móti kemur að við þurfum að geta rætt eðli forsetaembættisins. Embættið, eins og margt á Íslandi, á rætur sínar að rekja til danska konungsveldisins. Stjórnarskráin sem við erum með í dag og forsetaembættið grundvallast á konunglegri arfleifð. Í raun átti þetta að vera bráðabirgðastjórnarskrá,“ segir Helgi.

Hann segir hugmyndir um forsetaembættið ekki samrýmast lýðræðishugmyndum sínum. „Við tölum um lýðræði og þingræði og það er góðra gjalda vert en ég held að grunninntakið sé það sama og í konungsveldi. Þessu fylgir að valdið komi að ofan og renni niður á við og sé veitt fólki. En lýðveldishugsjónin eins og ég skil og aðhyllist hana, er að valdið eigi að koma frá fólkinu og renna upp á við. Ekki öfugt.“

Í viðtalinu ræðir Helgi Hrafn einnig um Pírataspjallið svokallaða, Facebook-síðu þar sem málefni Píarata eru rædd. „Pírataspjallið er „out of control“, það er engin spurning. Það er löngu hætt að vera raunhæfur stefnumótunarvettvangur og var aldrei slíkur,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert