Sakar stjórnarandstöðuna um að skapa upplausn

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skaut föstum skotum að stjórnarandstöðunni á …
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skaut föstum skotum að stjórnarandstöðunni á þingi í dag. mbl.is/Styrmir Kári

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sakaði stjórnarandstöðuna á Alþingi um að reyna að skapa upplausn og óánægju í samfélaginu. Óheiðarleg umræða á þingi sé helsta ástæða þess hvaða sess Alþingi hafi hjá þjóðinni. Þingmaður Bjartrar framtíðar segir trúnaðarbrest hafa orðið í samfélaginu.

Í umræðu um störf þingsins við upphaf þingfundar í morgun lagði Jón út frá niðurstöðum nýs mælikvarða á gæðum samfélagsinnviða sem hagfræðingurinn Michael Porter kynnti á ráðstefnu í Hörpu í gær. Þar sé Ísland í fjórða sæti á eftir Noregi, Svíþjóð og Sviss.

Jón sagði þetta mælikvarða á heilbrigði samfélagsins sem fólk býr í. Niðurstaðan endurspegli stöðuna í íslensku samfélagi í algerlega nýju ljósi. Þeir sem ræddu um stöðuna í íslensku samfélagi á Alþingi með bölmóði og neikvæðum hætti ættu að gaumgæfa niðurstöðuna.

„Ég held að það sé orðið tímabært að menn taki hér til málefnalegri umræðu í stað þeirra óheiðarlegu umræðu sem við verðum vitni að og á stærstan þátt í því hvaða virðingarsess Alþingi skipar á meðal þjóðarinnar. Rökþrota stjórnarandstaða beitir gjarnan slíkum aðferðum að reyna að vilja skapa upplausn og óánægju. Það er tímabært að við förum að snúa við blaðinu og tökum málefnalega umræðu um málin,“ sagði Jón.

Glutri niður tækifærum með sundrungu

Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, gaf í skyn að orð Jóns væru liður í kosningabaráttu sem væri að hefjast. Samflokksmaður hennar, Páll Valur Björnsson, sagði það rétt að margt væri gott í íslensku samfélagi en ekki væri hægt að líta fram hjá því sem færi miður. Trúnaðarbrestur hafi orðið í samfélaginu og mótmæli almennings kölluðu eftir því að ríkisstjórnin og Alþingi endurnýjuðu umboð sitt í kosningum.

Sagði Páll Valur það ekki geta verið frekju stjórnarandstöðunnar að biðja ríkisstjórnina um að leggja fram afmarkaðan fjölda mála til að afgreiða í vor áður en gengið verði til kosninga í haust vegna þess að það sé skýlaus krafa almennings að kosið verði.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði hættumerki á lofti þegar kynnt væri undir ólgu og sundrungu í samfélaginu því með henni væri hægt að glutra niður tækifærum sem Ísland hafi.

Sagði hann íslenskt samfélag í stórsókn og um það væri ekki hægt að deila. Spurði Ásmundur hvort til stæða að glutra því niður með innbyrðis sundrungu.

„Ég segi nei,“ sagði þingmaðurinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert