Segir kominn tíma á betri sundlaug

Ísfirðingar hafa státað sig af góðu sundfólki í gegnum árin.
Ísfirðingar hafa státað sig af góðu sundfólki í gegnum árin.

Í drögum að hugmyndasamkeppni vegna hugsanlegra endurbóta á Sundhöll Ísafjarðarbæjar segir að þær séu hugsaðar til að bæta sundaðstöðu, aðgengi, aðbúnað fatlaðra, búningsklefa og útbúa útisvæði með pottum og stærri gufubaði.

Ekki stendur til að bæta sundaðstöðu fyrir keppnisgreinar í þetta skipti eða gera breytingar á sundlauginni sem er 16 metra löng innilaug. Laugin var byggð fyrir sjötíu árum og hafa ekki verið gerðar breytingar á henni. 

Hugmyndasamkeppnin hefur verið til umræðu hjá íþrótta- og tómstundanefnd að undanförnu. Bæjarráð og bæjarstjórn þurfa að samþykkja hana áður en hægt verður að setja hana af stað. Sitt sýnist hverjum um mögulegar fyrirhugaðar breytingar en sumir telja að frekar ætti að byggja fjölnota íþróttahús og bæta aðstöðu sundiðkenda til muna.

Páll Janus Þórðarson, yfirþjálfari Sunddeildar Vestra, deildi pistli á Facebook-síðu sinni fyrr í þessari viku þar sem hann gagnrýndi aðstöðu fyrir sundfólk á Ísafirði. Hafði hann verið með tvo iðkendur á Íslandsmeistaramóti í 50 metra laug helgina áður og gerðu þau ógilt í tveimur af sex sundum. Sagði hann að það mætti rekja til aðstöðunnar sem þau hafa til æfinga.

Annars vegar sé æfingarlaugin of grunn og stutt og hins vegar líkist bakkar og ráspallar ekki þeim aðstæðum sem þau keppa við. Þá hafa þau sem æfa sund aðeins aðgang að sundlauginni í fjórar klukkustundir á dag.

Sundhöllin var tekin í notkun árið 1945.
Sundhöllin var tekin í notkun árið 1945.

Lofuðu ekki fjölnota íþróttahúsi

Kristján Andri Guðmundsson, formaður íþrótta- og tómstundanefndar og bæjarfulltrúi Í-listans, segir að í umræðunni um hugsanlegar endurbætur gæti ákveðins misskilnings. Aðeins sé búið að gera drög að hugmyndasamkeppni sem síðan eigi eftir að fara til bæjarráðs og bæjarstjórnar, ekki sé búið að ákveða að fara í framkvæmdirnar sama hver kostnaðurinn verður.

Í fundargerðum nefndarinnar er að finna bókanir frá fulltrúum Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks þar sem sendir að mjög brýnt sé orðið að ráðast í alvöru uppbyggingu íþróttamannvirkja í bæjarfélaginu til þess að íþróttaiðkendurm, og þá ekki síst börn og unglingar, standi jafnfætis íþróttaiðkendum í öðrum sambærilegum bæjarfélögum á landinu.

Verði ráðist jafn kostnaðarsama framkvæmd og „stefnt er að, þá verður að teljast afar ólíklegt að á næstu árum muni vera til nokkurt fjármagn til uppbyggingar aðstöðu fyrir ungt íþróttafólk í bæjarfélaginu,“ segir í bókun bæjarfulltrúanna.

Kristján Andri segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi lofað fjölnota íþróttahúsi í síðustu sveitarstjórnarkosningum en það hafi Í-listinn ekki gert. Hann segir að ekki sé gert ráð fyrir breytingum á sundlaugarkerinu vegna plássleysis.

Stærri laug, betri nýting

Páll Janus er meðal þeirra sem vilja sjá uppbyggingu á aðstöðu fyrir þá sem kjósa að synda í lauginni. Í dag æfa um eitt hundrað börn hjá sunddeild Vestra og allir nemendur grunnskólans koma einu sinni í viku í skólasund. Aðrir gestir hafa aðgang að lauginni í fjórar klukkustundir á dag á virkum dögum.

„Ég myndi auðvitað vilja fá almennilega lengd á laug, allavega 25 metra laug að lámarki,“ segir Páll Janus, aðspurður um hvaða breytingar hann myndi vilja sjá.

„Við erum líka með mjög takmarkaðan laugartíma en það þarf að loka lauginni fyrir almenning svo sundæfingar og skólasund geti farið fram. Laugin er opin fimmtán tíma á dag en þar af eru fjórir tímar fyrir almenning og ellefu tímar fyrir sundæfingar og skólasund.

Með stærri laug væri hægt að hafa opið bæði fyrir almenning og æfingar samtímis. Maður fær alltaf svona pínu eins og það sé verið að horfa á hnakkann á manni fyrir að vera alltaf í sundalauginni og almenningur fái aldrei að vera í lauginni. Samfélagið er vissulega mjög samhelt hérna og veit að það er best fyrir börnin að vera í íþróttum,“ bætir Páll Janus við.

Þá bendir hann á áhyggjur innan sundhreyfingarinnar að með aukinni aðstöðu fyrir aðmenning gæti orðið krafa um að skerða enn frekar þann tíma sem úthlutað er til þeirra þriggja íþróttafélaga sem stunda æfingar í lauginni, þ.e. Sunddeild Vestra, Sunddeild Ívars og Kubbur, íþróttafélag eldri borgara. 

Kristján Andri Guðmundsson, formaður íþrótta- og tómstundanefndar og bæjarfulltrúi Í-listans, …
Kristján Andri Guðmundsson, formaður íþrótta- og tómstundanefndar og bæjarfulltrúi Í-listans, segir að í umræðunni um hugsanlegar endurbætur gæti ákveðins misskilnings.

Meira svigrúm fyrir eldri borgara 

Ísfirðingar hafa státað sig af góðu sundfólki í gegnum árin og er Kristín Þorsteinsdóttir, Vestfirðingur síðasta  árs, meðal þeirra sem skína skært um þessar mundir. „Það er mikil hefð fyrir sundíþróttinni hérna á Ísafirði og við höfum átt gott sundfólk í gegnum árin miðað við aðstöðu. Það hefur hallað undan fæti að undanförnu og dregið úr þessu, með bættri íþróttaaðstöðu  hjá öðrum deildum og öðrum greinum,“ segir Páll Janus.

Kristín æfir af kappi fyrir heimsmeistaramót á Flórens á Ítalíu í sumar þar sem keppt er í 50 metra laug, laug sem er 34 metrum lengri en laugin á Ísafirði. Næsta 25 metra sundlaug er á Hólmvík og segir Páll Janus óraunhæft að keyra þangað til að fara á sundæfingar. Hann segir þjálfara og iðkendur vera duglega að nýta sér mót á höfuðborgarsvæðinu þar sem æft og keppt er við mun betri aðstæður.

Páll Janus vill þó ekki aðeins sjá betri aðstöðu fyrir þau sem æfa sund. Hann vill gjarnan að almenningur hafi aðgang að sundlaug lengur en fjórar klukkustundir á dag en með stærri laug væri hægt að hafa opið bæði fyrir almenning og æfingar samtímis. 

Virka daga er laugin opin almenning frá kl. 7-8 á morgnana og síðan frá kl. 18-21 á kvöldin. Hann segist hafa þjálfað víða um land og viti af reynslu að eldri kynslóðirnar sæki helst í laugarnar fyrri hluta dags og njóti þess að geta stundað líkamsrækt.

Hér má sjá færslu Páls Janusar um málið: 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert