Seinkanir á millilandaflugi í morgun

24 flugum var annað hvort seinkað eða aflýst í nótt …
24 flugum var annað hvort seinkað eða aflýst í nótt vegna verkfallsaðgerða flugumferðastjóra. Isavia

Tveimur flugum Airberlin til og frá Þýskalandi var aflýst í nótt vegna verkfallsaðgerða flugumferðastjóra. Tæplega tuttugu öðrum flugum var seinkað, meðal annars öllum morgunflugum Icelandair og Wowair. Ein flugvél Icelandair lenti í nótt á Reykjavíkurflugvelli vegna málsins.

Verkfallsaðgerðir flugumferðastjóra náðu frá klukkan níu í gærkvöldi til sjö í morgun. Eru alla jafna tveir menn á næturvakt, en í gær fékk Isavia upplýsingar um veikindi þeirra og varð ekkert um mönnun vaktarinnar.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að seinkunin muni hafa áhrif á flugplan flugfélaganna áfram út morguninn og jafnvel fram á daginn. „Flugfélögin verða einhvern tíma að ná til baka tveggja tíma seinkunn,“ segir Guðni.

Fyrsta flugið í morgun var flug Wowair frá Boston klukkan 4:30. Lenti vélin ekki fyrr en 7:05 og í kjölfarið hafa 13 önnur flug lent í Keflavík. Segir Guðni að þrátt fyrir verkfallið og seinkunina þá komist farþegar og flug á leiðarenda.

Aðspurður um frekari aðgerðir segir Guðni að ekki sé fyrirséð um það. Upplýsingar um aðgerðirnar í nótt hafi aðeins borist Isavia klukkan þrjú í gær og þá hafi allt farið í gang við að upplýsa farþega og flugfélög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert