Yfirvinnubannið jafngildir verkfalli

Yfirvinnubann flugumferðastjóra er talið jafngilda verkfalli.
Yfirvinnubann flugumferðastjóra er talið jafngilda verkfalli. Mbl.is/ Ernir Eyjólfsson

Yfirvinnubann flugumferðastjóra er talið jafngilda verkfalli og því eiga sömu reglur við og þegar verkföll hindra farþega í að komast til áfangastaðar síns, eða seinka för hans. Þetta er mat Samgöngustofu, en vegna yfirvinnubanns flugumferðastjóra þá stöðvaðist áætlanaflug um Keflavíkurflugvöll frá því klukkan 21 í gærkvöldi og þar til 7 í morgun.

Samkvæmt réttindum flugfarþega þá eiga farþegar rétt á að velja um endurgreiðslu eða fá breytingu á flugleið þegar verkföll hindra þá í að komast til áfangastaðar síns, eða seinka för, líkt og gerðist í gær. En þá voru tveir flug­um­ferðar­stjór­ar sem áttu að vera á vakt á Kefla­vík­ur­flug­velli í nótt veik­ir og ekki fengumst menn í afleysingar vegna yf­ir­vinnu­banns flug­um­verðar­stjóra.

Farþegar eiga því nú sama rétt á upplýsingum og þjónustu, endurgreiðslu og breytingu á flugleið og ef um verkfall væri að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu gilda tilteknar lágmarkskröfur í þessum tilfellum, en flugfélögum er heimilt að ganga lengra ef þau það kjósa.

Reglugerðin kveður einnig á um að flugfélögum beri að bjóða farþegum máltíðir og hressingu í samræmi við lengd tafarinnar, sem og hótelgistingu, ef að farþegi neyðist til að bíða eina eða fleiri nætur eftir fari.

Funda næst 9. maí

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari segir ennþá gert ráð fyrir að næsti sáttafundur í deilu Félags íslenskra flugumferðastjóra (FÍF) og Samtaka atvinnulífsins (fyrir ISAVIA) verði haldinn 9. maí. Viðræður milli deiluaðila hafa staðið yfir frá því í nóv­em­ber á síðasta ári, en síðustu átta fund­ir hafa verið haldn­ir und­ir stjórn Rík­is­sátta­semj­ara. Þá hefur yfirvinnubann FÍF staðið yfir frá 6. apríl. 

„Það stendur enn til að funda 9. maí, en aðilar geta alltaf óskað eftir fundi ef  þeir telja að þeir hafi eitthvað sem muni breyta stöðunni,“ segir Bryndís. Enginn beiðni hafi þó borist um slíkt enn sem komið er. „Það ber ansi mikið á milli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert