Heilbrigðismál sameina þjóðina

Bjarni Bendiktsson, Kristján Þór Júlíusson og Sigurður Ingi Jóhannsson, voru …
Bjarni Bendiktsson, Kristján Þór Júlíusson og Sigurður Ingi Jóhannsson, voru viðstaddir þegar Kári Stefánsson afhenti forsætisráðherra undirskriftirnar 86.279 í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Aðgangur að heilbrigðisþjónustu er eitt þeirra mála sem ég tel að sé meiri samstaða um en oft má ráða af umræðunni í þjóðfélaginu,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, á lokahátíð undirskriftarsöfnunarinnar „Endurreisum heilbrigðiskerfið,“ sem fram fór í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar í dag.

Við athöfnina sló Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, á létta strengi áður en hann afhenti Sigurði Inga Jóhannssyni, forsætisráðherra, veglegan bunka með undirskriftunum 86.279.

Frétt mbl.is: „86.000 radda kór hefur tjáð sig“

„Ég kann betur við þennan mjúka Kára sem er hérna í dag,“ sagði Bjarni, áður en hann hóf að ræða heilbrigðismálin. „Það sem sameinar okkur er svo miklu meira en það sem sundrar okkur. Í dag höfum við eitthvað til að sameinast um og verkefnið sem bíður okkar er að halda áfram að auka þjónustuna og tryggja samkeppnishæfni hennar.“

Greiðsluþátttökukerfið verði endurskoðað

Bjarni sagði nýja fjármálaáætlun, sem kynnt var í gær, sýna hvernig hægt sé að bæta aðstöðuna. „Hún sýnir einnig hvernig við getum haldið áfram að taka til í greiðsluþátttökukerfinu. Í dag er það þannig að heimilin bera um það bil 30 milljarða af kostnaði í heilbrigðiskerfinu á meðan hið opinbera greiðir um 170 milljarða.“ Bjarni sagði að ríkisstjórnin væri tilbúin að skoða að stefna í átt að því að lækka þann hlut og dreifa enn jafnar en kerfið gerir í dag.  

Í undirskriftarsöfnunininni „Endurreisum heilbrigðiskerfið“ er að finna þá kröfu að 11% af vergri landsframleiðslu verði varið til heilbrigðismála. Bjarni varar við að líta of sterkum augum á prósentutöluna.

Frétt mbl.is: Áætlunin í takt við kröfu undirskriftanna

„Ég hef goldið varhug við því að festa sig um of í hlutfalli af landsframleiðslu. Það sem ég vil sjá er að við horfum á gæði þjónustunnar, á aðstöðu fyrir starfsfólkið, á aðgengi fyrir sjúklingana, á öryggi þjónustunnar og jafnt aðgengi um allt land og fyrir alla. Þetta er það sem á endanum við hljótum að dæma heilbrigðisþjónustuna af, en ekki eitthvað hlutfall af landsframleiðslu.“

Bjarni nefnir dæmi máli sínu stil stuðnings. „Ef landsframleiðslan myndi lækka, sem enginn vill auðvitað sjá gerast, þá myndi þetta hlutfall hækka. Þess vegna segi ég að þetta sé bara einn af mjög mörgum mælikvörðum sem við getum haft til hliðsjónar, en á endanum eru það aðrir hlutir sem skipta meira máli.“

Áhersla á heilbrigðismál í kosningunum

Kári Stefánsson sagði við afhendinu undirskriftanna að mikilvægt væri að gera heilbrigðismálin að forgangsmáli fyrir næstu kosningar sem fram fara í haust. Bjarni tók undir orð Kára. „Við munum tala skýrt um heilbrigðismál og okkar áhersluatriði í okkar heilbrigðisstefnu. Ég tek undir það að ég tel að flokkar sem ætla að skila auðu þar munu ekki ná neinum árangri í kosningunum.“

Sigurður Ingi Jóhannson, forsætisráðherra, tekur við undirskriftalistunum af Kára Stefánssyni, …
Sigurður Ingi Jóhannson, forsætisráðherra, tekur við undirskriftalistunum af Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert