Kuldatíðin hrellir bændur í sauðburði

Agnar Kristjánsson, bóndi í Norðurhlíð í Aðaldal, með tvö nýlega …
Agnar Kristjánsson, bóndi í Norðurhlíð í Aðaldal, með tvö nýlega borin lömb í fanginu. mbl.is/Atli Vigfússon

„Ég er hóflega bjartsýnn á tíðarfarið og það er ekki að sjá nein hlýindi í kortunum á næstunni. Það er eins gott að hafa nóg pláss í fjárhúsunum, því það er vetur úti og virðist að svo verði áfram. Þetta er árlegt og manni líst ekki á vorkuldana.“

Þetta segir Agnar Kristjánsson, bóndi í Norðurhlíð í Aðaldal, en nokkrar ær eru bornar hjá honum og sauðburður fer fljótlega á fulla ferð.

Í vikunni hefur verið mjög kalt og hríðarbylur hrellt Þingeyinga síðustu daga. Fannfergi er nokkuð mismunandi, en snjó hefur ekki tekið að leysa ennþá og víða er langt í það að bændur geti ekið dráttarvélum um akra og tún.

Girðingar víða á kafi

Í Köldukinn er mikill snjór við bæi og langt í að þar leysi snjó, ef ekki fer að hlýna. Girðingar eru víða enn á kafi og eru í sumum sveitum mjög illa farnar eftir krapastórhríðar vetrarins, en þá hlóð miklum snjó á staura og víra sem sliguðust undan farginu. Það á aðallega við um Reykjahverfi, en þar voru ríkjandi austanáttir sem færðu mikinn snjó í skafhríðum niður í byggðina ofan af Reykjaheiði.

Sauðburður er að hefjast á flestum bæjum, en bændur geta ekki búist við því að koma lambfénu út á næstunni. Til þess þarf mikið að breytast. Margir eru með mjög gott pláss en þó er það nokkuð misjafnt eftir bæjum.

Þingeyingar eru ekki neinir viðvaningar þegar kemur að vorhretunum, því þeir þekkja vor þegar lambfé er að mestu inni allan maímánuð. Það er ekki gott fyrir lömbin og stundum fer að bera á óhreysti þegar þau komast ekki út vegna tíðarfarsins.

Margir eru nokkuð bjartsýnir á að tíðin breytist og þá gerist allt mjög fljótt og hægt verður að setja út og gefa í gjafagrindur úti á túnum þó svo að ekki sé komin beit.

Gæsir hafa borið sig illa í vikunni í tíðarfarinu. Mikill fjöldi heiðargæsa og grágæsa er á túnum, þar sem ekki eru fannir. Sjá má hópa þar sem hundruð gæsa eru að reyna að kroppa eitthvað upp úr jörðinni og þá helst sinu. Það er ekki mjög næringarrík fæða og ef kuldarnir halda áfram getur það haft neikvæð áhrif á gæsavarpið.

Vorhret fækka mófugli

Aðrir fuglar eru ekki margir, en þó má sjá litla hópa af lóum sem kúra sig niður í túnin í kuldanum. Mófugli hefur fækkað á undanförnum árum, en þar eiga vorhret og langvarandi kuldar sinn þátt. Má þar einkum nefna árin 2002, 2006 og 2011 þegar mikill snjór eyðilagði varp fjölda fugla, en árið 2006 skar sig nokkuð úr, því þá varð mikill fugladauði dagana 21.-23. maí vegna mikillar fannkomu og hvassviðris.

En sauðburðurinn er alltaf góður tími í augum fjárbænda og Agnar í Norðurhlíð hlakkar alltaf til þegar ærnar fara að bera. Ærnar hans eru mjög frjósamar og sumar hafa verið fjórlembdar og jafnvel fimmlembdar. Það sem af er í byrjun sauðburðar hafa ærnar í Norðurhlíð borið tveimur lömbum hver hið minnsta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert