Taka örvandi lyf til að bæta námsárangur

Nærri 12% þátttakenda í rannsókn Gyðu sögðu auðvelt að komast …
Nærri 12% þátttakenda í rannsókn Gyðu sögðu auðvelt að komast yfir örvandi lyf. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Um 13% íslenskra háskólanema í grunnnámi hafa misnotað örvandi lyf, ef marka má niðurstöður doktorsverkefnis Bergljótar Gyðu Guðmundsdóttir, sem hún vann við University of Rhode Island. Svo virðist sem fylgni sé milli misnotkunar lyfjanna og kvíða og einkenna ADHD, en Gyða segir ýmsum spurningum ósvarað, m.a. hvort samfélagið sé tilbúið til að leggja blessun sína yfir notkun lyfja til að bæta hugræna færni.

Þátttakendur í rannsókn Gyðu voru 521 og stunduðu nám við nokkra íslenska háskóla. Þeir svöruðu spurningalista á netinu, þar sem m.a. var spurt um kyn og meðaleinkunn, og hvort þeir hefðu sýnt einkenni ADHD, eða þjáðst af streitu, kvíða eða þunglyndi.

Niðurstaðan var eins og fyrr segir sú að 13% svarenda sögðust hafa misnotað örvandi lyf, fleiri karlmenn en konur, en ef aðeins er horft til þeirra sem höfðu ekki fengið skrifað upp á lyfin, var hlutfallið 11%.

Niðurstöðurnar komu Gyðu á óvart; jafnvel þótt hana grunaði að misnotkun örvandi lyfja tíðkaðist meðal háskólanema, átti hún ekki von á því að hlutfallið væri svo hátt.

17% bandarískra háskólanema misnota örvandi lyf

„Ástæðan fyrir því að ég ákvað að rannsaka þetta er sú að það er skrifað upp á mikið af örvandi lyfjum á Íslandi, og við eigum held ég bara heimsmet,“ segir Gyða. Hún hefur verið búsett í Bandaríkjunum sl. fimm ár en þar er notkun örvandi lyfja einnig mjög mikil.

„Umræðan á Íslandi hefur í raun öll snúist um þá sem eru að sprauta sig með þessum lyfjum; sptrautufíkla, sem er mjög alvarlegur vandi, en umræðan um misnotkun þessara lyfja til taugaeflingar hefur í raun bara farið fram í fjölmiðlum og það hafa ekki verið gerðar neinar rannsóknir á þessu,“ segir hún.

Vísindamenn sem hafa rannsakað stöðu mála í Bandaríkjunum hafa m.a. tekið saman niðurstöður 20 rannsókna og komist að því að þar í landi misnota um 17% háskólanema örvandi lyf, en Gyða segir misnotkun lyfjanna allt að því normaliseraða vestanhafs. Hún sé uppi á borðum og hluti af háskólaupplifuninni.

Gyðu langaði að vita hvort þessarar þróunnar gætti hér á landi.

Gyða segir að ef til vill skorti úrræði fyrir háskólanema …
Gyða segir að ef til vill skorti úrræði fyrir háskólanema sem þjást af streitu eða kvíða. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég hugsaði að kannski væri þetta ekkert að gerast hér, því háskólaumhverfið á Íslandi er náttúrlega aðeins öðruvísi en í Bandaríkjunum. En pressan er samt gífurleg og ég ímyndaði mér að það væri mjög líklegt að þetta ætti sér stað,“ segir hún.

Það sem lá fyrir að athuga var m.a. hversu algeng misnotkun örvandi lyfja væri og hvaða þættir spáðu fyrir um hana. Það kom m.a. í ljós að um 40% þeirra sem höfðu fengið skrifað upp á örvandi lyf höfuð misnotað þau, þ.e. tekið meira magn en læknir hafði ráðlagt eða af öðrum ástæðum en rætt var um.

„Skilgreiningin á misnotkun er reyndar á reiki,“ segir Gyða. „Fræðimenn eru ekki sammála um hvort við eigum að horfa á alla, bæði þá sem eru með skrifað upp á lyfin og þá sem eru ekki með skrifað upp á þau. Er það sama hegðun; að fá ekki skrifað upp á þau og verða sér út um þau, og eiga lyfin frá lækni en taka meira en manni er sagt? Þetta er svolítið óljóst.“

Vilja auka úthald í námi og skemmtanalífinu

Samkvæmt upplýsingum á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er aðeins einn flokkur örvandi lyfja á markaði á Íslandi, en lyf í þeim flokki eiga það sameiginlegt að innihalda virka efnið methylphenidat. Þessi lyf eru Ritalin, Equasym, Ritalin Uno og Concerta.

Þau eru notuð til að meðhöndla ADHD, athyglisbrest með ofvirkni, sem er „taugafræðileg röskun sem einkennist af langvarandi athyglisvanda, hvatvísi og, í sumum tilvikum, ofvirkni.“

Flestir sem misnota lyfin sækja hins vegar í þau af öðrum ástæðum. Stærstur hluti svarenda í rannsókn Gyðu sagðist nota hin örvandi lyf til að bæta frammistöðu sína í námi; þ.e. auka einbeitingu og úthald. Þá var einnig stór hópur sem sagðist hafa prófað að taka lyfin til að komast í vímu og auka úthald á djamminu.

En eru lyfin að hjálpa hvað þetta varðar?

„Það er ekki alveg ljóst og það er það sem er svo áhugavert,“ segir Gyða. „Fólk telur sig hafa gagn af þessu og að þetta hjálpi sér en það er ekki alveg ljóst.“

Bergljót Gyða Guðmundsdóttir hefur verið búsett í Bandaríkjunum sl. fimm …
Bergljót Gyða Guðmundsdóttir hefur verið búsett í Bandaríkjunum sl. fimm ár og stundað doktorsnám í sálfræði við University of Rhode Island.

Gyða hefur unnið að annarri rannsókn þar sem niðurstaðan virðist sú að neysla örvandi lyfja hefur einhver áhrif á hugræna þætti á borð við vinnsluminni, langtímaminni og vinnsluhraða, en Gyða setur fyrirvara við niðurstöðurnar.

„Þetta er rannsóknarverkefni þar sem þú situr fyrir framan tölvu og ýtir á einhverja takka á lyklaborði ef einhver stafur birtist, og þú ert kannski betri ef þú tekur þessi lyf en ef þú tekur þau ekki, en við vitum ekki hvernig þetta tengist námsárangri eða frammistöðu í lífi og starfi. Í raunverulegum aðstæðum, samanborið við á rannsóknarstofu.

Svo er annað; það er ekkert víst að þessi lyf gagnist öllum, við erum ólík að upplagi og erum ekki með eins heila, og það getur verið að taugaboðefnabúskapur heilans sé breytilegur milli manna. Það sem við vitum samt er að þetta gagnast ekki bara fólki sem er með ADHD; þetta virðist hafa samskonar áhrif hjá fólki sem er bæði með formlega greint ADHD og þeim sem hafa ekki verið greindir með ADHD.“

Tengsl milli kvíða og misnotkunar

Eins og önnur lyf geta örvandi lyf haft ýmsar aukaverkanir og þeir sem taka þau án þess að vera undir lækniseftirliti eru því að taka ákveðna áhættu, segir Gyða. Þá geta þeir sem neyta lyfjanna með því að sprauta þeim, taka þau í nefið eða jafnvel reykja þau, upplifað hjartsláttaóreglu og jafnvel ofskynjanir.

„Og það er möguleiki að þetta hafi öfug áhrif við það sem fólk ætlar, sérstaklega ef fólk ætlar að einbeita sér; ef þú tekur of stóran skammt getur þetta mögulega leitt til „hyper“ fókuss, þannig að þú ferð að fókusa á einhver smáatriði sem skipta engu máli. Þannig að þetta getur skaðað frammistöðuna líka, í ákveðnum tilfellum.“

Í rannsókninni spurði Gyða ekki um tíðni notkunar, þ.e. hvort fólk hafði prófað lyfin nokkrum sinnum eða notaði þau að staðaldri. Hún komst hins vegar að því að marktæk fylgni var á milli þess hvort fólk hafði upplifað kvíða eða einkenni ADHD, og þess hvort það hafði misnotað örvandi lyf einhvern tímann á lífsleiðinni.

Engin fylgni reyndist hins vegar á milli einkenna streitu og þunglyndis annars vegar, og misnotkunar hins vegar.

Þessar niðurstöður, sem eru í takt við niðurstöður annarra rannsókna, gefa vísbendingu um að mögulega sé fólk sem misnotar örvandi lyf, óafvitandi að bregðast við ákveðnum einkennum, self medicate, eins og það er kallað á ensku.

Þá segir Gyða að niðurstöðurnar séu mögulega vísbending um vangreiningu.

„Að vísu held ég að Íslendingar standi sig mjög vel í að sinna þessum hópi samanborið við margar Evrópuþjóðir, svona miðað við það sem ég hef heyrt útundan mér,“ segir Gyða. „Við erum með ADHD teymi á Landspítalanum og þetta hefur verið mjög í umræðunni, þannig að ég held að meðvitund og þekking sé nokkuð góð á Íslandi. Ég held samt að það geti verið einhver hópur sem hefur ekki leitt hugann að því að eitthvað sé að, og ég held að það eigi ekki bara við um ADHD heldur kvíða og streitu og þessa þætti.

Gyða segir rannsóknina vekja spurningar um hversu langt við erum …
Gyða segir rannsóknina vekja spurningar um hversu langt við erum tilbúin að ganga í því sem hún kallar taugaeflingu. mbl.is/Styrmir Kári

„Dauðans alvara“

Gyða segir mörgum spurningum ósvarað, t.d. af hverju notkun örvandi lyfja sé meiri á Íslandi og í Bandaríkjunum heldur en Þýskalandi, svo dæmi sé tekið. Þá segir hún þá spurningu vakna hvort aðgengi að annars konar þjónustu sé nógu mikið eða gott.

Hún segir að kanna þurfi hvort eitthvað megi gera til að hjálpa þeim háskólanemum sem eiga við kvíða að etja, eru undir miklu álagi og óttast að standa sig ekki nógu vel, og þá sé ekki síður mikilvægt að þeir sem skrifa upp á örvandi lyf leggi áherslu á það við fólk að þau séu ekki eitthvað sem óhætt er að segja í dreifingu.

„Það er dauðans alvara að vera að fikta með þessi lyf án samráðs við lækni,“ segir hún.

Varðandi praktískt gildi rannsóknar sinnar segir Gyða hana fyrst og fremst sýna svart á hvítu að misnotkun örvandi lyfja á sér stað meðal háskólanema. Þá geti rannsóknir af þessu tagi bent fólki í rétta átt ef samfélagið vill sporna gegn þessari þróun.

Hún segir niðurstöðurnar hins vegar einnig kveikja heimspekilegar spurningar; í Bandaríkjunum eigi sér t.d. stað heilmikil umræða um hversu langt við erum tilbúin að ganga í því sem Gyða kallar „taugaeflingu“.

„Við erum alltaf að reyna að gera ýmislegt til að bæta frammistöðu okkar, verða betri og sterkari og klárari. Ef þessi lyf hafa jákvæð áhrif, eins og fólk telur þau hafa, ætlum við þá að veita meiri aðgengi að þeim til að, „hypothetically“, gera okkur að sterkari og greindari einstaklingum, eða viljum við draga línu í sandinn og segja: nei, hingað og ekki lengra,“ segir Gyða.

„Það eru kannski rök með og á móti en ég held að eins og staðan er í dag vitum við ekki nógu mikið um hvaða áhrif þessi lyf hafa til að geta mælt með því að það verði veittur aðgangur að þeim, samkvæmt læknisráði, til að efla hugræna færni,“ segir hún en ítrekar að hún sjái alls ekki fyrir sér að lyfin verði fáanleg án aðkomu lækna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert