Mikið að gera hjá lögreglunni

mbl.is/Eggert

Talsvert mikið var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Einkum vegna fólks undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.

Þannig var til að mynda tilkynnt um karlmann skömmu eftir miðnætti sem væri með vandræði á skemmtistað í Mosfellsbæ. Þegar lögreglan kom á vettvang hafði hann skemmt hurð og sitthvað fleira. Var hann handtekinn og vistaður í fangaklefa.

Ennfremur var tilkynnt um karlmann sem dyraverðir höfðu haft afskipti af á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur. Maðurinn var ofurölvi, án skilríkja og gat ekki gert grein fyrir sér. Var hann vistaður í fangageymslu lögreglu þangað til að honum rennur og hægt verður að ræða við hann.

Sömuleiðis var á fjórða tímanum tilkynnt um konu fyrir utan skemmtistað í Grafarvogi sem var ofurölvi. Konan var án húslykla og ekki tókst að ná í neinn sem gat tekið við henni. Var hún því vistuð í fangaklefa þar til hægt verður að tala við hana.

Þá var skömmu fyrir miðnætti tilkynnt um ölvaðan ökumann. Bifreiðin var hins vegar mannlaus þegar hún fannst. Hún var ótryggð og því voru skráningarnúmer tekin af henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert