Vætusamt á landinu í dag

Veðurspáin gerir ráð fyrir breytilegri átt á landinu í dag, 3-8 metrum á sekúndu, en 8-13 m/s með austurströndinni. Dálítil rigning eða þokuloft verður á láglendi og snjókoma til fjalla. Á morgun verður vaxandi norðanátt og 8-13 m/s síðdegis. Rigning eða slydda verður norðantil, en stöku skúrir syðra. Hiti verður á bilinu 1-8 stig, kaldast í innsveitum norðaustanlands.

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vefsíðu Veðurstofu Íslands í morgun að lægð sé yfir landinu sem skili sér í því að skýjað er og allvíða rigning eða þokuloft á láglendi en snjókoma til fjalla sem fyrr segir. Inni í lægðarmiðjunni sé hins vegar hægur vindur og þar sem lægðin sé flatbotna verði hæg breytileg átt nokkuð víða á landinu í dag.

„Úti á miðum blæs vindur rangsælis kringum Ísland og gæti hann náð landi með suðaustur- og austurströndinni, búast má við 8-13 m/s á þeim slóðum. Hiti í dag frá 1 stigi í innsveitum á Norðausturlandi, upp í 8 stig sunnanlands,“ segir ennfremur og bætt við að á morgun komi ný lægð til sögunnar sem fari til norðurs fyrir austan landið.

„Hún kemur til með að valda eindreginni norðanátt, seinnipartinn má búast við 8-13 m/s nokkuð víða. Með fylgir rigning eða slydda, en lítil úrkoma sunnan megin á landinu, þó ekki sé útilokað smáskúrir stingi sér niður hér og þar fram eftir degi,“ segir síðan og áfram:

„Spár gera síðan ráð fyrir að norðanáttin ráði ríkjum áfram hjá okkur fram að helgi. Þessi norðanátt er ekki af köldustu gerð, frekar má segja að hún sé svöl. Áfram er búist er við úrkomu á norðanverðu landinu, ýmist rigning, slydda eða snjókoma. Sunnan megin verður úrkoma lítil sem engin, reglulega sést til sólar og hiti kringum 8 stig þegar best lætur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert