Veiðimaðurinn vaknar úr dvala

Ólafur Vigfússon (til vinstri) rekur verslunina Veiðimanninn.
Ólafur Vigfússon (til vinstri) rekur verslunina Veiðimanninn. Mbl.is/Árni Sæberg

Verslunin Veiðimaðurinn tók aftur til starfa í dag að Krókhálsi 4 í Reykjavík en ekki hefur verið rekin eiginleg verslun undir því nafni frá því árið 2008. Fyrir þann tíma var verslunin þekkt kennileiti í miðborg Reykjavíkur í áratugi. Starfsemin hætti þó ekki alfarið 2008 en síðan hefur verið rekin vefverslun undir sama nafni á slóðinni www.veidimadurinn.is.

„Fyrir um það bil ári síðan vaknaði þessi hugmynd að gera meira úr þessari búð því þetta er mjög vaxandi hverfi hérna. Við erum við leiðina út úr bænum. Síðan stigum við skrefið seinni partinn í vetur með framkvæmdum. Það er auðvitað allt að fara af stað núna,“ segir Ólafur Vigfússon sem rekur verslunina ásamt konu sinni Maríu Önnu Clausen.

Veiðimaðurinn er elsta veiðiverslun landsins en sögu hennar má rekja til ársins 1938 þegar Albert Erlingsson stofnaði Veiðiflugugerðina að Brávallagötu 48. Síðar flutti Albert starfsemina fyrst á Lækjartorg og síðar í Hafnarstræti og tók upp nafnið Veiðimaðurinn á fyrirtækið. Verslunin var í mörg ár starfrækt í Hafnarstræti 22 en síðar Hafnarstræti 5.

Þau Ólafur og maría stofnuðu félagið Bráð ehf. í ársbyrjun 1998 og keyptu verslunina í Hafnarstræti 5. Verslunin var rekin þar fram til haustsins 2008 þegar ákveðið var að loka henni í kjölfar bankahrunsins. Síðan þá hefur Veiðimaðurinn legið að mestu í dvalaþó vefverslun hafi verið rekin undir sama nafni ásamt lagersölu í tengslum við hana.

„Það er mikill hugur í veðimönnum og okkur þótti tímabært að dusta rykið af gamla Veiðimanninum,“ segir Ólafur. Spurður um markaðsaðstæður núna segir hann þær góðar. Eftirspurn eftir veiðivörum hafi ekki horfið í kjölfar efnahagssamdráttarins en eftirspurnin hafi breyst. Meira hafi verið keypt af ódýrari vörum en það sé nú að breytast.

„Eftirspurnin eftir lúxusvörum dróst saman en það varð alger sprenging í ódýrari vörum. fólk gaf sér meiri tíma til þess að gera eitthvað með börnunum sínum og ferðaðist frekar innanlands en til útlanda. Núna er hins vegar að skapast þörf til að endurnýja dýrari búnaðinn. Við leggjum áherslu á að koma til móts við sem flesta, bæði með lúxusvörum og ódýrari vörum.

Veiðimaðurinn er elsta veiðiverslun landsins.
Veiðimaðurinn er elsta veiðiverslun landsins. Mbl.is/Árni Sæberg
Veiðimaðurinn er nú til húsa að Krókhálsi.
Veiðimaðurinn er nú til húsa að Krókhálsi. Mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert