Fullur vilji til að bæta kerfið

María Rut segir markmiðið að tryggja réttaröryggi borgara, réttláta málsmeðferð …
María Rut segir markmiðið að tryggja réttaröryggi borgara, réttláta málsmeðferð og stuðla að auknu trausti til kerfisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

 María Rut Kristinsdóttir, formaður samráðshóps innanríkisráðuneytisins um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins, segir vinnu hópsins ganga afar vel og að mikill vilji sé til að bæta kerfið.

Hópurinn hafi fundað þrisvar sinnum og ráðgert sé að hann skili af sér aðgerðaáætlun til ráðherra þann 1. júní.

Auk þess að stýra samráðshópnum hefur María lagt mikla áherslu á samráð og samvinnu við alla þá fagaðila sem að kerfinu koma. Einnig hefur María átt marga fundi með fræðimönnum og grasrótarsamtökum til þess að tryggja það að hópurinn fái eins gott sjónarhorn á stöðu mála og hægt er.

„Það er búið að vera ótrúlega lærdómsríkt að heimsækja allar þessar einingar sem mynda réttarvörlukerfið og fagaðila sem vinna innan þess. Ég mun funda áfram með hagsmunaaðilum eins og ég get, því það skilar sér svo vel inn í vinnuna,“ segir María Rut í samtali við mbl.is.

Nýlega hélt Dr. Nina Burrowes  fyrirlestur fyrir hópinn. Hún er breskur sálfræðingur sem sérhæfir sig í því að þjálfa lögreglumenn, saksóknara og dómara í því að skilja sálfræðina á bakvið kynferðisbrot og hefur unnið við málaflokkinn í mörg ár.

„Það var virkilega gagnlegt að hlusta á dr. Burrowes. Hún hefur fágæta innsýn inn í brotaflokkinn, þar sem hún hefur helgað starfsferil sinn því að skilja kynferðisbrot. Hún vann um árabil við það að vinna að úrræðum fyrir gerendur  og skilja það hvers vegna einstaklingar brjóta af sér á þennan  hátt.

Hún hefur í seinni tíð stúderað þolendur og sálfræðileg viðbrögð þeirra við því áfalli sem þeir verða fyrir eftir kynferðisbrot og þannig tónar hennar vinna mjög vel inn í það sem við erum að rýna í þessa dagana í samráðshópnum. Nú erum við að skoða það hvort við getum jafnvel fengið hana til að koma aftur til Íslands, þá í þeim tilgangi að halda námskeið fyrir þá aðila sem koma að réttarvörslukerfinu hér á landi, líkt og hún gerir í Englandi.“

Á heimasíðu innanríkisráðuneytisins kemur fram að á meðal verkefna hópsins er að taka afstöðu til úrbótatillagna sem birtast í rannsókn Hildar Fjólu Antonsdóttur um viðhorf fagaðila og reynslu þeirra af störfum innan réttarvörslukerfisins. Einnig verður hópnum falið að skoða upplifun brotaþola og sakborninga innan kerfisins, hvernig hægt sé að auka traust og tiltrú á réttarvörslukerfinu og huga að virkari úrræðum fyrir bæði þolendur og gerendur. Þá getur hópurinn eftir atvikum mótað nýjar úrbótatillögur með það að markmiði að auka skilvirkni, samvinnu og samtal innan réttarvörslukerfisins.

Stuðla að trausti og tiltrú

María Rut hefur sjálf tjáð sig opinskátt um eigin reynslu sem þolanda kynferðisofbeldis og hefur síðustu ár verið einn skipuleggjenda Druslugöngunnar í Reykjavík . Hún segir það hafa verið afar áhugavert að hitta fólkið sem vinnur að kynferðisbrotamálum dagsdaglega en er ekki endilega sýnilegt almenningi út á við.

„Umræðan snýst oft um að kerfið sé gallað og ónýtt svo það var mjög gott fyrir grasrótarmanneskju eins og mig að átta mig á því að kerfið er ekki endilega stærsta hindrunin, heldur felast einmitt tækifærin í kerfinu,“ segir María Rut.

„Það er fullur vilji hjá þeim sem vinna innan kerfisins að taka þeirri gagnrýni sem upp hefur komið og vinna að því að bæta kerfið. Það eru allir sammála um að finna raunhæfar lausnir sem eru til þess fallnar að mæta þeirri gagnrýni sem kerfið hefur mætt í gegnum tíðina.“

María segi alvarlegt mál að umræðan sé á þá vegu að kerfinu sé ekki treystandi, samráðshópurinn taki þann vanda mjög alvarlega og unnið sé af kappi að því greina það sem gera má betur. Þannig sé hægt að búa til aðgerðaáætlun sem geri það að verkum að hægt verði að finna lausnir á vandamálunum fremur en að flækja þau enn frekar.

„Við vonum að sjálfsögðu að vinnan muni skila sér í því fyrst og fremst að tryggja réttaröryggi borgara landsins, tryggja vandaða, skilvirka og réttláta málsmeðferð og stuðla að því að traust og tiltrú almennings á kerfinu verði meira en raunin er í dag,“ segir María.

„Við munum kynna aðgerðaáætlunina rækilega þegar hún liggur fyrir en það er fullur vilji til að horfa til framtíðar og nýta þá gagnrýni sem dynur stundum á kerfinu á uppbyggilegan hátt og finna þannig flöt á stöðu mála þannig að hægt sé að vinna að því að gera betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert