Gera þurfi allt sem hægt er að gera

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég á svolítið erfitt með að átta mig á stefnu ríkisstjórnarinnar og sérstaklega Framsóknarflokksins hvað varðar skattaskjól og eign manna í skattaskjólum og viðskipti manna úr skattaskjólsfélögum,“ sagði Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag í fyrirspurn til Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra. Rifjaði hann upp að framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins hefði látið af störfum vegna tengsla við aflandsfélög en forysta flokksins hafi hins vegar ekki talið þörf á því. Árni sagðist telja ákvörðun framkvæmdastjórans hafa verið rétta.

Forsætisráðherra tíundaði í svari sínu þær aðgerðir sem gripið hefði verið til af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. „Stefna framsóknarmanna er mjög skýr og það hefur meðal annars komið fram hér að við fengum formann efnahags- og viðskiptanefndar, Frosta Sigurjónsson, til að leiða þá vinnu og veit að sú vinna hefur gengið mjög vel. Fyrir liggur skýrsla sem nefndin hefur unnið um möguleika á því sem hægt er að gera hér á landi. Þar við bætist það sem áður hefur verið gert og fram hefur komið, að Ísland er með þeim löndum sem lengst hafa gengið í að upplýsa slík mál.“

Þá hefði Sigurður Ingi sjálfur hvatt þá sem ekki hefðu gert hreint fyrir sínum dyrum, hefðu farið með peninga í leynd og svikið undan skatti, að gera hreint fyrir sínum dyrum. „Síðan er ríkisstjórnin búin að setja á laggirnar starfshóp sem á að skila af sér innan mjög skamms tíma með aðild ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, tollstjóra og fleiri aðila sem eiga að fara yfir þá möguleika sem þar eru innanborðs til þess einmitt að rannsaka, draga fram og skýra þau mál. Þannig afstaða okkar í þessum málum er mjög skýr.“

Hvað framkvæmdastjórann fyrrverandi varðaði sagði forsætisráðherra að hann hefði stofnað tvö félög fyrir 12 eða 14 árum síðan sem höfðu annaðhvort lagt upp laupana eða verið stofnuð í einhverjum ákveðnum tilgangi. Annað félagið hefði ekki komið starfi hans fyrir Framsóknarflokkinn við eða flokknum sem slíkum. „Hitt var ekkert ósvipað mál og bæði Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur hafa verið að skoða varðandi vátryggingastarfsemi þar sem hann var eins konar milligöngumaður, sem oft eru lögfræðingar.“

Sagði ráðherrann mikilvægt í umræðunni að gera greinarmun á því sem væri löglegt og því sem væri ólöglegt þar sem fólk sviki undan skatti. „Þar er ég sammála þeim sem hafa sagt að gera þurfi allt sem hægt er að gera.“

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert