Heildarmyndin kann að vera stærri

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

Þingsályktunartillaga Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, um að ríkisstjórnin beiti sér fyrir alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gagnvart lágskattaríkjum var rædd á Alþingi í dag. Markmið aðgerðanna verði að koma í veg fyrir leynd yfir eignarhaldi félaga í lágskattaríkjum og koma í veg fyrir skattaundanskot.

Árni Páll sagði þörf á því að marka skýra alþjóðlega stefnu í málinu í ljósi þeirra upplýsinga sem hafa komið fram í Panamaskjölunum. Hann sagði athyglisvert að ekki eitt bandarískt fyrirtæki eða Bandaríkjamenn hafi komið við sögu í Panamaskjölunum. „Heildarmyndin á þessu máli kann að vera stærri og flóknari en við höfum gert okkur í hugarlund.“

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, spurði Árna hvort væntingarnar um að Ísland geti verið í fararbroddi á heimsvísu séu raunhæfar. „Hversu trúverðugt er það á meðan við erum enn með tvo ráðherra Íslands sem eru í Panamaskjölunum? Gengur það að halda því fram að við ætlum að vera í forystu í þessum málum á meðan ríkisstjórnin sjálf hefur ekki tekið betur til hjá sér en raun ber vitni?,“ spurði Svandís.

Frosti Sigurjónsson.
Frosti Sigurjónsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, lýsti yfir stuðningi sínum við markmið aðgerðanna en taldi ekki rétt að Ísland ætti að vera í forsvari fyrir þeim. „Ef markmiðið er að við ætlum að bæta ímynd landsins út á við þurfum við að gera trúverðugri hluti. Við verðum að sjá til þess að við sjálf séum ekki skattaskjól. Ísland er skattaskjól á ýmsa vegu,“ sagði hann og nefndi útlendinga og stóriðju sem dæmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert